Atli Steinn Guðmundsson
„Það blasir við að þetta sé myndskeið sem tekið er upp á síma hérna á lögreglustöðinni og nú liggur það næst fyrir að héraðssaksóknari rannsaki málið, það er það embætti sem fer með rannsókn mála þegar starfsmenn lögreglu eru grunaðir um refsivert athæfi.“
Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is um myndskeið af árásinni á Bankastræti Club, úr öryggismyndavél þar á staðnum sem virðist sem lekið hafi verið frá lögreglunni og þar með komist í almenna dreifingu.
Kveður Grímur það nú til skoðunar hvort og hve mikið lekinn geti haft áhrif á rannsóknina og eftir atvikum sett þar strik í reikninginn. „Þetta eru auðvitað rannsóknargögn og ef þau fara á flakk og í birtingu í fjölmiðlum getur það sannarlega haft áhrif á rannsóknina en hve mikil þau áhrif eru vitum við bara ekki á þessu stigi,“ segir Grímur um lekann sem héraðssaksóknari mun nú taka til rannsóknar.