„Hefði konan þín mátt kaupa hlut í bankanum?"

Bjarni Benediktsson á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun. Við …
Bjarni Benediktsson á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun. Við hlið hans situr Sigurður H. Helgason, skrifstofustjóri hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var spurður að því á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun hvort öruggt sé að þeir erlendu aðilar sem keyptu hlut í Íslandsbanka séu í raun og veru erlendir aðilar. Hvort innlendir aðilar hafi í raun og veru staðið á bak við þá.

Bjarni sagði í svari við fyrirspurn Lilju Rannveigar Sigurgeirsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, engan vafa leika á því að þeir tveir hluthafar sem eru á lista yfir tíu stærstu hluthafana séu „þekktir risastórir alþjóðlegir fjárfestar“ og bætti við að það sé traustsyfirlýsing að hafa fengið svona stóra erlenda fjárfesta til þátttöku á íslenska markaðnum.

Þórhildur Sunna á fundinum.
Þórhildur Sunna á fundinum. Ljósmynd/Sjáskot

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði frekar út í þessa erlendu aðila og sagðist Bjarni ekki vita hvort þessir þeir hafi verið að kaupa fyrir hönd einhvers annars. Einnig spurði hún hvort Íslandsbanki sjálfur hafi staðið þar á bakvið og svaraði Bjarni að það væri áhyggjuefni ef bankinn hefði lánað til að kaupa í sjálfum sér. Hann hafi engar upplýsingar um slíkt. Gengið sé út frá því að allir þátttakendur í ferlinu hafi fylgt lögum. „Ef ekki, þurfum við að ná í skottið á þeim og refa þeim,“ sagði hann.

Bjarni kom skömmu síðar inn á „ásakanir um að ég hafi verið vanhæfur til að taka ákvarðanir“ varðandi sölu ríkisins á hlut í bankanum og vísaði hann til skýrslu ríkisendurskoðanda sem hafi ekki séð ástæðu til að draga hæfi hans í efa.

„Hefði konan þín mátt kaupa hlut í bankanum?“ spurði Þórhildur Sunna í kjölfarið og sagðist Bjarni „ekki ætla að svara svona hýpóþetískum spurningum“.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég tók engar ákvarðanir um úthlutun, það er eitthvað sem þingmaður virðist ekki hafa áttað sig á,“ sagði Bjarni og bætti við að úthlutunarlistar hafi aldrei komið til skoðunar í fjármálaráðuneytinu.

Þórhildur Sunna spurði jafnframt hvort  einungis rannsóknarnefnd gæti komist að því hvort innlendir aðilar hafi notað erlenda fjárfestingasjóði til að kaupa hluti í útboðinu og svaraði Bjarni að uppfylla þurfti skilyrði um þátttöku um að vera hæfir fjárfestar til að fá að taka þátt.

Útboðsleiðin ekki aftur farin

Í svari við spurningu Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um hvort hann myndi mæla aftur með tilboðsleiðinni við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka kvaðst Bjarni útiloka að núverandi ríkissjón vilji fara útboðsleiðina aftur vegna gallanna sem því fylgi, ekki síst vegna þess í hversu smáu samfélagi við búum. „Ég er ekki síst að vísa til þátta eins og jafnræðis,“ sagði hann og bætti við að það geti verið flókið að tryggja fullt jafnræði. Tilboðsfyrirkomulagið hafi góða kosti, verðið sem fékkst hafi verið mjög ásættanlegt og að frávik hafi verið minna en þekkist í sambærilegum sölum á undanförnum árum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það eru augljósir kostir við tilboðsleiðina. Ég tel að við höfum notið þeirra vel í því að fá á skömmum tíma hátt verð fyrir mjög stóran hlut, en það eru gallar sem henta illa fyrir sölu á ríkiseign, sem raungerðust í þessu.“ Velti hann því upp í framhaldinu hvers virði það sé að leggja aukna áherslu á gagnsæi og hvort hægt sé að sætta sig við lægra verð til að tryggja þau markmið.

Bjarni kom aftur inn á gallana á útboðsleiðinni í svari við spurningu Orra Páls Jóhannssonar, þingmanns VG. „Við höfum kannski lært það í þessu ferli og fyrirkomulagið getur verið vandmeðfarið og dálítið flókið í framkvæmd í samfélagi eins og okkar.“

Hvað varðar traust í samfélaginu þegar kemur að frekari sölu á hlut ríkisins í bankanum sagði hann best að fara ofan í saumana á því sem gerðist og að taka þurfi tillit til ábendinga „sem við teljum okkur hafa verið að gera“.

Sigmar Guðmundsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir á fundinum í morgun.
Sigmar Guðmundsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í svari við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, um hvort áform séu um að selja fleiri hluti í bankanum á næsta ári sagði Bjarni að ríkið sé „í engri brýnni þörf að losa um hlutinn fjárhagslega“ en ef slíkar aðstæður kæmu upp kæmi meðal annars til greina að taka hluti af bankanum og dreifa til Íslendinga án endurgjalds, samhliða útboði.

Nefndi Bjarni jafnframt á fundinum að ríkissjóður sé í engum kröggum þótt hluturinn verði ekki seldur og bætti við að í lok árs séu skuldir ríkissjóðs 160 milljörðum króna lægri en reiknað var með fyrir ári síðan.

Spurður af Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, út í ábyrgð ráðherra og hvort jafnræðis hafi verið gætt við söluna sagði Bjarni að Bankasýsla ríkisins heyri undir ráðherra en að einnig sé sjálfstæð stjórn yfir henni. Þetta sýni að ráðherra eigi að halda sig frá því hvernig stjórnin uppfyllir sín verkefni.

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

„Stærsta ákvörðunin sem ég þurfti að taka var að fallast á tillögur Bankasýslunnar og hleypa ferlinu áfram til enda,“ sagði hann en tók fram í framhaldinu að veikur blettur í söluferlinu hafi verið sá að erfitt hafi verið að tryggja að allir söluráðgjafar beittu sömu aðferðafræði til að tryggja væntanlega kaupendur að ferlinu. „Það er þekkt að sumir hafi verið hvattir á meðan aðrir þurftu að sýna frumkvæði. Þetta truflar mann aðeins með jafnræðið, hélt Bjarni áfram.

Tók hann þó fram að meginþungi eftirspurnarinnar hafi verið tilkominn vegna undirbúnings Bankasýslunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert