„Getum ekki verið bláeygð og sýnt barnaskap“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Eggert Jóhannesson

Engir erlendir aðilar eru á íslenskum skuldabréfamarkaði og hefur bein erlend fjárfesting dregist saman. Máli skiptir hvaðan fjárfestingin kemur og geta Íslendingar ekki verið bláeygðir og sýnt barnaskap í því að það mun verða mjög mikil ásækni í þjóðhagslega mikilvæga innviði á Íslandi. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á fundi viðskiptaráðs í morgun, en yf­ir­skrift fund­ar­ins var: Hver ber ábyrgð á verðbólg­unni?

Spurður hvort tækifæri lægju í því að rétta halla ríkissjóðs við með því að auka erlenda fjárfestingu og liðka til fyrir henni sagði Bjarni að það væri sjálfstætt áhyggjuefni hversu lág bein erlend fjárfesting væri á Íslandi miðað við OECD ríkin. Hlutfall beinnar erlendar fjárfestingar nam að meðaltali um 35% af vergri landsframleiðslu á árunum 2017-2021 samanborið við 62% hlutfall 2010-2015. Til samanburðar var hlutfallið um 56% að meðaltali innan OECD.

„Almennt er bein erlend fjárfesting mjög lág miðað við OECD ríkin og sjálfstætt áhyggjuefni. Auk þess er áhyggjuefni hvernig talað er um erlenda fjárfestingu á Íslandi almennt. Ég held að við getum ekki orðið eftirsóknarverður staður fyrir fjárfesta ef við höfum ekki stöðugleika í efnahagsmálum,“ segir Bjarni.

Fjölmennt var á fundi viðskiptaráðs í morgun.
Fjölmennt var á fundi viðskiptaráðs í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skiptir máli hvaðan fjárfestingin kemur

Drög að frumvarpi til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu hefur verið lagt fram. Bjarni sagði verkefnið sem Íslendingar stæðu frammi fyrir núna væri að gæta að samkeppnisskilyrðum Íslands fyrir fjárfestingu á sama tíma og gætt væri að þjóðaröryggismálum er hann var spurður hvort rétt væri skilið að frumvarpið lýsi því að þjóðaröryggissjónarmið eigi að geta komið í veg fyrir næstum hvaða fjárfestingu sem er erlendis frá.

Við getum ekki verið bláeygð og sýnt barnaskap í því að það mun verða mjög mikil ásækni í þjóðhagslega mikilvæga innviði á Íslandi. Við þurfum að gæta okkar á því að það gerist ekki bara án þess að nokkur sé á vaktinni og að við töpum þeim frá okkur. Þannig gröfum við undan þjóðaröryggisþáttum sem er algjört grundvallaratriði,“ segir Bjarni.

Bjarni telur máli skipta hvaðan fjárfestingin sé og að verkefnið felist fyrst og fremst í því að skilgreina hverjir þjóðhagslega mikilvægir grunninnviðir séu í landinu. Hann segir að íslenska þjóðin geti verið frekar afslöppuð gagnvart EES þjóðum en það sama gildi ekki um allan heiminn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert