Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur boðað aðila vinnumarkaðarins á sinn fund í Stjórnarráðinu fyrir hádegi til að fara yfir stöðu mála í kjölfar ákvörðunar Seðlabanka Íslands um að hækka stýrivexti um 0,25 prósentur í gær. Mikils titrings gætti meðal stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins vegna þeirrar ákvörðunar.
Samtök atvinnulífsins (SA) hafa sagt, að vaxtahækkun Seðlabankans í gær hafi sett kjaraviðræður við VR, Starfsgreinasambandið og Landsamband verslunarmanna í uppnám og að tímasetningin hafi verið afleit.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, sagði í samtali við mbl.is í gær, að það væri skelfileg þróun ef Seðlabankinn ætli sér að vera með pólitísk skilaboð sem þessi út á markaðinn.
Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi í SÍ í gær, að hækkun stýrivaxta upp í 6% ætti að vera nóg til að ná verðbólgu niður í markmið á ásættanlegum tíma. Hann tókþó fram að mögulega þyrfti að gera eitthvað aðeins meira áður en „við sendum boltann áfram“ og að bankinn muni nota þau tæki sem hann hafi sé þörf á því.
„Það er algjörlega með ólíkindum að Seðlabankinn skuli voga sér að senda þau skilaboð út á meðan við sitjum hér einbeitt í að reyna að ná kjarasamningum og ná niður verðbólgu og vöxtum að við skulum þá fá þessa rennandi blautu tusku framan í andlitið frá þessum egóistum upp í Seðlabanka,“ sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, við mbl.is í gær.