„Þetta eru bara áfallatímar“

Kjartan Ragnarsson, regluvörður Myntkaupa er viðmælandi í fyrsta þætti Hvítþvotts.
Kjartan Ragnarsson, regluvörður Myntkaupa er viðmælandi í fyrsta þætti Hvítþvotts. Ljósmynd/Aðsend

Líkja má nú­ver­andi ástandi í heimi raf­mynta í kjöl­far gjaldþrots raf­mynta­kaup­hall­ar­inn­ar FTX við hrun fjár­mála­markaða árið 2008. Flest­ar þeirra 20.000 raf­mynta sem eru til munu eiga erfitt með að lifa áfallið af. Þetta seg­ir Kjart­an Ragn­ars, reglu­vörður Mynt­kaupa, í fyrsta þætti hlaðvarps­ins Hvítþvott­ar.

Í byrj­un nóv­em­ber bár­ust frétt­ir af því að inni­stæður viðskipta­vina FTX hefðu verið lánaðar í leyf­is­leysi til syst­ur­fé­lags kaup­hall­ar­inn­ar. Í kjöl­farið gerðu viðskipta­vin­ir FTX áhlaup á kaup­höll­ina og freistuðu þess að taka út inni­stæður sín­ar. Þetta reynd­ist kaup­höll­inni ofviða og fyr­ir tveim­ur vik­um varð hún gjaldþrota.

„Þetta eru bara áfalla­tím­ar í heimi raf­mynta,“ seg­ir Kjart­an.

Kjart­an seg­ir út­lit fyr­ir að FTX hafi verið svika­mylla og nefn­ir orð skipta­stjóra FTX, Johns Rays, því til stuðnings en Ray seg­ist aldrei hafa séð viðlíka bresti í stjórn­un fyr­ir­tæk­is. Full­yrðing skipta­stjór­ans hef­ur vakið þó nokkra at­hygli sök­um þess að hann starfaði einnig sem skipta­stjóri ol­í­uris­ans En­ron í Banda­ríkj­un­um fyr­ir um tutt­ugu árum. Gjaldþrot þess er gjarn­an nefnt eitt stærsta hneyksli í banda­rískri fjár­mála­sögu.

„Ég hef því miður ein­hverja til­finn­ingu fyr­ir því að við eig­um eft­ir að fá fleiri skelli,“ seg­ir Kjart­an. „Það eiga ein­hverj­ir stór­ir aðilar eft­ir að falla í viðbót.“

Sigurður Páll Guttormsson, þáttastjórnandi Hvítþvotts.
Sig­urður Páll Gutt­orms­son, þátta­stjórn­andi Hvítþvotts. Ljós­mynd/​Aðsend

Stórt skref aft­ur á bak

Kjart­an tel­ur að fall FTX muni fresta því að stofn­an­ir og líf­eyr­is­sjóðir fjár­festi í raf­mynt­um og að lík­legt sé að bjarn­ar­markaður, þ.e. lækk­un­ar­fasi, muni vara á raf­mynta­markaði út næsta ár .„Þetta er stórt skref aft­ur á bak,“ seg­ir Kjart­an.

Hvað varðar framtíð raf­mynta tel­ur hann engu að síður að verðmæt­asta og þekkt­asta raf­mynt­in, Bitco­in, hafi staðið af sér meiri hremm­ing­ar held­ur en fall FTX og muni einnig standa það af sér.

„Menn eru ým­ist alltof svart­sýn­ir eða alltof bjart­sýn­ir,“ seg­ir Kjart­an. „Von­andi eru menn alltof svart­sýn­ir núna.“

Hlaðvarpið Hvítþvott­ur fjall­ar um pen­ingaþvætti frá ólík­um sjón­ar­horn­um. Í þess­um fyrsta þætti hlaðvarps­ins ræðir Kjart­an einnig við þátta­stjórn­and­ann, Sig­urð Pál Gutt­orms­son, um hvaða áhætt­ur eru til staðar í tengsl­um við pen­ingaþvætti og raf­mynt­ir, hvernig pen­ingaþvætti fer fram með raf­mynt­um hér á landi og hvers vegna hann tel­ur að raf­mynt­ir séu ekki áhættu­sam­ari en aðrir greiðslumiðlar í því sam­hengi


Þátt­ur­inn er kom­inn inn á all­ar helstu hlaðvarps­veit­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert