„Kveður við nýjan tón í samskiptum þessara sveitarfélaga“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi. mbl.is/Árni Sæberg

Pirrings virðist gæta á milli sveitastjórnarmanna í nágrannasveitarfélögunum Hveragerði og Ölfusi sé mið tekið af bókunum á bæjarstjórnarfundum að undanförnu. 

Sunnlenska vekur athygli á þessu á vef sínum en á fundi bæjarstjórnar í Hveragerði í nóvember voru hugmyndir Ölfusinga um orkunýtingu í Reykjadal gagnrýndar harðlega. Töldu Hvergerðingar afar óábyrgt af bæjarstjóra Ölfuss að viðra málið í fjölmiðlum eins og það er orðað hjá Sunnlenska. 

Elliði Vignisson ræddi við mbl.is um mögulega orkunýtingu á svæðinu í kringum Reykjadalinn fyrir um mánuði síðan og sagðist ekki vilja taka stór skref í friðlýsingu að svo stöddu. 

Bæjarstjórn Ölfuss hefur nú svarað fyrir sig en þrátt fyrir ágreining virðast bæjarstjórnarmenn í báðum sveitarfélögum vera sammála um að óheppilegt sé að ræða málið á opinberum vettvangi að svo stöddu. 

„Sérstaka undrun vekur að bæjarstjórn Hveragerðis velji skeytasendingar á bæjarstjórn og orðaleppa í fjölmiðlum sem farveg til samstarfs. Þar kveður við nýjan tón í samskiptum þessara sveitarfélaga,“ segir í bókun bæjarstjórnar en bæjarstjóra Ölfuss, Elliða Vignissyni, hefur nú verið falið að eiga sem fyrst fund með umhverfis- og orkumálaráðherra, til að ítreka vilja Ölfuss til orkunýtingar á Hengilssvæðinu. 

Nánar má lesa um málið á vef Sunnlenska

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert