„Það bara fauk í mig“

Lilja Alfreðsdóttir á fundinum í morgun.
Lilja Alfreðsdóttir á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það kom ráðherranefnd ríkisstjórnarinnar í opna skjöldu að kaupendalistinn vegna sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka var ekki birtur á sínum tíma, að sögn Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra.

„Ég skal viðurkenna það að ég hafði ekki hugmyndaflug í það. Það er algjört grundvallaratriði þegar er verið að selja eigu fólksins í landinu að kaupendalistinn liggi fyrir,“ sagði hún á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun. Annars ríki vantraust á milli ráðherranefndarinnar og Bankasýslunnar.

Hún sagði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafa gengið mjög hratt á eftir því að Bankasýslan birti listann. „Það var svo hrópandi og áberandi að þarna skorti upp á gagnsæi,“ bætti hún við.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Lilja kvaðst telja að Bankasýslan hafi með söluferlinu tekið upp aðferðafræði sem notuð er annars staðar í Evrópu og viljað nota hana hérlendis. Það komi Lilju ekki á óvart ef kaupendalistar séu ekki birtir erlendis. Bankasýslan hafi aftur á móti ekki tekið tillit til pólitíska landslagsins á Íslandi og mikilvægi þess að Íslendingar beri traust til sölunnar.

Hún sagði ráðherranefndina hafa viljað meira gagnsæi og upplýsingar í ferlinu en að Bankasýslan hafi talað um að slíkt sé ekki gert annars staðar.

„Bankasýslan hefur eflaust talið að hún væri að sinna sínu hlutverki út frá lögunum,“ sagði hún og hélt áfram: „Við sjáum það öll að við þurfum ekki einu sinni eða tvisvar, heldur þrisvar, að ganga á eftir kaupendalistanum.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Bætti hún að forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra hafi sett mikla og þunga pressu á Bankasýsluna um að birta kaupendalistann. „Við gerðum okkur grein fyrir því að mikil ábyrgð fylgir því að selja eigu almennings. Það var mjög mikil pressa til þess að auka þetta gagnsæi.“

Þegar hún sá síðan kaupandalistann sagði hún að fokið hafi í sig vegna fagfjárfestanna sem þar voru og að sumir hafi keypt fyrir „tiltölulega lágar upphæðir“.

„Það bara fauk mig,“ sagði hún og bætti síðar við: „Maður hefði viljað að um leið og það var búið að ganga frá sölunni að kaupendalistinn væri birtur.“

Spurð hvort það hafi ekkert truflað hana að félagið Hafsilfur, sem er í eigu föður Bjarna Benediktssonar, hafi verið á meðal kaupenda sagði hún að heppilegra hefði verið ef „enginn sem tengdist okkur“ hafi verið þátttakandi. Fjármála- og efnahagsráðherra hafi ekki verið upplýstur um þetta.

Lilja sagði það jafnframt ekki hafa verið heppilegt að Íslandsbanki hafi tekið þátt í sölunni á hlutnum. Erlendis sé það þekkt að þegar verið er að selja hluti taki viðkomandi banki ekki þátt í ferlinu, til að salan sé algjörlega hafin yfir vafa.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert