Þórdís ræddi stöðu landa í nágrenni við Rússland

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í Búkarest. …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í Búkarest. Með henni á myndinni eru Bogdan Aurescu, utanríkisráðherra Rúmeníu, og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra tók þátt í utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins sem hófst í gær og lauk í dag. Á fundinum voru viðbrögð við innrás Rússlands í Úkraínu í brennidepli auk þess sem staða Georgíu, Moldóvu og Bosníu og Hersegóvínu var rædd sérstaklega. Þessi lönd eru ekki hluti af Atlantshafsbandalaginu og verða fyrir alvarlegum áhrifum Rússa.

„Fundurinn í dag var í raun eftirfylgni fundarins sem haldinn var í Madríd í sumar þar sem við samþykktum grunnstefnu NATO til næstu ára,“ segir Þórdís.

„Hluti af því snýr að auknum viðnámsþrótti og áttum við sérstakan fund með utanríkisráðherrum Georgíu, Moldóvu og Bosníu og Hersegóvínu sem eru ekki hluti af Atlantshafsbandalaginu og verða fyrir töluverðum og alvarlegum áhrifum Rússa sem eru með mikil ítök innan þessara landa. Staða þeirra er oft á tíðum viðkvæm en Moldóva hefur til að mynda tekið á móti gríðarlegum fjölda fólks frá Úkraínu.“

Áhersla á sterk samfélög

Á fundunum hefur Þórdís lagt mikla áherslu á að sterk samfélög séu líklegri til þess að hafa meiri viðnámsþrótt auk þess að koma á framfæri stuðningi Íslands.

„Við höfum lagt ríka áherslu á að NATO ríkin, bæði hvert í sínu lagi og sem bandalag þurfi að standa fast á því sem bandalagið var búið til fyrir og standa vörð um það. Ég legg áherslu á að sterk samfélög séu líkleg til þess að vera með meiri viðnámsþrótt þegar kemur að daglegum áhrifum. Með markvissum og meðvituðum ítökum í samfélögum er líklegra að þau standist það séu samfélögin sterk,“ segir Þórdís.

Finnland og Svíþjóð boðsríki

Þátttaka utanríkisráðherra Finnlands og Svíþjóðar sem boðsríki í öllum vinnulotum fundarins markar tímamót. Þórdís segir það sitt diplómatíska verkefni að tryggja að Ungverjar og Tyrkir klári sín mál í heimaríkinu til þess að Svíþjóð og Finnland geti gengið í Atlantshafsbandalagið.

„28 ríki af 30 hafa klárað öll sín mál í sínum heimaríkjum til þess að Svíþjóð og Finnland geti gerst aðilar að Atlantshafsbandalaginu en enn er beðið eftir Ungverjalandi og Tyrklandi. Það er í fyrsta sinn sem þau taka fullan þátt í fundinum og vonandi verða þau orðin aðilar að bandalaginu fyrir fyrsta fund. Það er diplómatískt verkefni að tryggja að Ungverjar og Tyrkir klári sín mál í heimaríkinu,“ segir Þórdís.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert