13 milljarðar á tveimur árum í tilraunastarfsemi

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins. mbl.is/Ágúst Ólíver

„Í þessum aðgerðum er alltof mikið höggvið í viðkvæma hópa og höggvið er í skólana og leikskólana í stað þess að taka virkilega á þeim málaflokkum þar sem þenslan hefur verið mest,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn, um hagræðingartillögur meirihlutans í Reykjavík. 

„Þenslan hefur verið hvað mest hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði þar sem fjármagni hefur verið sóað eins og enginn sé morgundagurinn. Þar eru 13 milljarðar farnir á tveimur árum í alls kyns tilraunastarfssemi á lausnum sem eru víða til nú þegar. Þar hefði verið hægt að fara í meira samstarf við önnur sveitarfélög og Stafræna Ísland. Einnig get ég nefnt skrifstofur borgarstjóra og borgarritara þar sem hafa verið þvílíkar ráðningar á fólki undanfarin ár.“

Staðan var orðin slæm fyrir faraldurinn

Kolbrún segir að biðlistar hafi lengst og nefnir aðstoð fagfólks í skólum. „Ég hef kvartað yfir því í mörg ár að áherslan er alltaf á dauða hluti eins og skreytingar og þrengingar heldur en börnin eða öryrkja. Ég hef sem dæmi margsinnis talað um biðlista barna eftir fagfólki í skólum, eins og sálfræðingum. Þegar ég byrjaði í borgarstjórn þá voru 400 börn á biðlistanum en nú eru 2.048 börn. Þessar tölur getur fólk séð á heimasíðu Reykjavíkurborgar,“ greinir Kolbrún frá. 

Ráðhús Reykjavíkurborgar.
Ráðhús Reykjavíkurborgar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún bætir við að heimsfaraldurinn einn og sér hafi ekki sett rekstur borgarinnar úr skorðum því reksturinn hafi verið á rangri leið áður en kórónuveiran kom til sögunnar. 

„Mér þykir vera seint í rassinn gripið. Staðan var orðin slæm fyrir faraldurinn og hefur orðið verri og verri síðustu þrjú árin. Nú er Framsókn komin til að hreinsa upp þennan skít fyrir borgarstjóra og hans fólk enda höfum við lítið séð af borgarstjóranum undanfarið en Einar [Þorsteinsson] mætir í viðtöl. Nú á að taka í bremsuna en ég hefði viljað sjá 10 milljarða sparnað í fjárfestingum en ekki 7 milljarða. Framkvæmdir varðandi Lækjartorg og Kirkjustræti verða bara að bíða. Það eru bara ekki forgangsmál núna. Við eigum heldur að standa vörð um börnin enda líður þeim æ verr samkvæmt rannsóknum Landlæknisembættisins. Auk þess súpa öryrkjar dauðann úr skel, ekki síst þeir sem eru á leigumarkaði,“ segir Kolbrún í samtali mbl.is. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert