Reykjavík er eins og ígulber

Sir Stephen Hough mun leika í Hörpu í janúar og …
Sir Stephen Hough mun leika í Hörpu í janúar og febrúar. Reykjavík er eins og ígulber

„Ég get ekki beðið,“ upplýsir breski píanóvirtúósinn Sir Stephen Hough sem er væntanlegur til tónleikahalds á Íslandi eftir áramótin. „Harpa er einn besti tónleikasalur í heimi og þá er ég bæði að tala um hljómburðinn og sjónræna þáttinn.“

Hann segir alltaf gaman að koma til Reykjavíkur, enda sé borgin engri lík. „Ég hef komið víða gegnum tíðina og það er sama hvort mann ber niður í Taípei eða Sydney, þá er alltaf eitthvað kunnuglegt. Strax í fyrsta skipti sem ég kom til Reykjavíkur fékk ég á tilfinninguna að bragðið væri allt annað en það sem ég hefði áður kynnst. Reykjavík er eins og ígulber en ekki eins og allir þessir ávextir sem bragðast nákvæmlega eins. Það spillir heldur ekki fyrir að áhorfendur baða mann alltaf í áhuga og hlýju. Eina eftirsjáin er sú að ég hef enn ekki náð að skoða landið að neinu gagni; eina leiðin sem ég þekki er frá flugvellinum til Reykjavíkur og aftur til baka.“

Hann hlær.

Eins og farandsirkus

Sir Stephen er það sem Sinfóníuhljómsveit Íslands kallar „listamann í samstarfi“ í vetur og í apríl fer hann í tónleikaferðalag um Bretland með sveitinni. „Það verður stórskemmtilegt. Tónleikaferðalög eru vissulega mikil vinna. Maður þarf að rífa sig upp fyrir allar aldir, drífa sig út á flugvöll eða lestarstöð, æfa aðeins og spila svo á tónleikum um kvöldið, dag eftir dag, en um leið er félagsskapurinn yndislegur og við deilum tónlist með fólki. Þetta er svolítið eins og farandsirkus. Stundum finnst mér eins og ræturnar liggi þarna. Svona byrjuðu tónlistarmenn, löngu áður en þetta varð að starfi, eins og ég þekki það. Fyrir þúsund árum var algengt að menn, sem annað hvort sungu vel eða sögðu skemmtilega frá, ferðuðust milli bæja og deildu tónlistinni og sögunum með fólki. Við ættum aldrei að víkja langt frá þeim rótum. Við erum sagnaþulir þorpanna, skemmtikraftarnir sem söfnumst saman við bálköstinn og freistum þess að lyfta sálinni og hefja hana upp úr fábreytni og stundum eymd hversdagsins. Einmitt þess vegna er listin enn þá eins mikilvæg og raun ber vitni.“

Hann ber Sinfóníuhljómsveit Íslands vel söguna. „Hún er dásamleg og ég kann vel að meta hversu alvarlega hljómsveitin tekur starf sitt. Hverjum og einum hljóðfæraleikara er annt um sitt hlutverk í keðjunni. Ég kom fyrst til Íslands áður en Harpa var tekin í notkun og spilaði í gömlu kvikmyndahúsi, sem ég man ekki nákvæmlega hvar var. Þá strax tók ég eftir því að hljóðfæraleikararnir voru mættir áður en æfingin átti formlega að hefjast og voru að stilla saman strengi sína og æfa einstaka þætti. Þessa staðfestu hef ég hvergi annars staðar séð í heiminum. Menn hika ekki við að gera meira en þeir eru beðnir um.“

Nánar er rætt við Sir Stephen í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um tónlist, ritstörf, trúmál, barnæskuna og fleira. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert