„Algjörlega óskiljanlegt“ hjá Reykjavíkurborg

Nýkjörið ungmennaráð Samfés.
Nýkjörið ungmennaráð Samfés. Ljósmynd/Samfés

Stytting opnunartíma félagsmiðstöðva í höfuðborginni er harðlega gagnrýnd í ályktun sem stjórn, ungmennaráð og fulltrúaráð Samfés senda frá sér. 

„Okkur hjá Samfés, aðildarfélögum, ungmennaráði Samfés, fulltrúaráði Samfés og fagaðilum á vettvangi finnst algjörlega óskiljanlegt að Reykjavíkurborg, sem nýverið setti af stað verkefnið “Betri borg fyrir börn”, sem á að miða að því að auka nærþjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi, ætli nú að stytta opnunartíma félagsmiðstöðva,“ segir meðal annars í tilkynningunni. Meirihlutinn í borginni kynnti fyrir helgi tillögur sínar um hagræðingu í rekstri Reykjavíkurborgar og verða þær ræddar á fundi borgarstjórnar á morgun. 

Ályktun Samfés: 

Okkur hjá Samfés, aðildarfélögum, ungmennaráði Samfés, fulltrúaráði Samfés og fagaðilum á vettvangi finnst algjörlega óskiljanlegt að Reykjavíkurborg, sem nýverið setti af stað verkefnið “Betri borg fyrir börn” sem á að miða að því að auka nærþjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi, ætli nú að stytta opnunartíma félagsmiðstöðva.

Samfélagið kallar hástöfum eftir auknu forvarnarstarfi til að koma til móts við þá staðreynd að langtímaáhrif heimsfaraldurs á unga fólkið okkar er núna í auknum mæli að koma upp á yfirborðið. Ljóst er að langtímaafleiðingar heimsfaraldurs verða miklar og mun ungt fólk bera þungann af þeim afleiðingum til framtíðar. Á þessum tímum óvissu og nýrra áskorana er mikilvægt að fara frekar í að stórauka stuðning við ungt fólk á Íslandi.

Afleiðingar af langvarandi óvissu valda kvíða sem hefur veruleg neikvæð áhrif á andlega, líkamlega og félagslega heilsu barna og ungmenna og getur, ef ekkert er að gert, haft neikvæð áhrif á framtíð þeirra.

Á þessum tímapunkti að hefja niðurskurðarhnífinn á loft og fara beint í að skerða mikilvæga þjónustu við börn og unglinga er grátlegt á sama tíma og allar viðvörunarbjöllur eru í gangi og rauð viðvörun sýnileg þegar kemur að aukinni áhættuhegðun, ofbeldisdýrkun og hópamyndun barna og ungmenna úti eftir lokun.

Við vitum öll að hinn eini sanni sparnaður felst í því að halda áfram og auka frekar við það öfluga og faglega forvarnarstarf sem fer fram í starfi félagsmiðstöðva Reykjavíkurborgar.

Stöndum saman og horfum fram á veginn, lærum af reynslunni og öllu því fagstarfi sem hefur skilað frábærum árangri í forvörnum eins og við erum nú þekkt fyrir á alþjóðavísu. Afleiðingar þess að draga úr og stytta opnun félagsmiðstöðva munu innan skamms leiða til verulegs aukins kostnaðar á komandi mánuðum og árum.

Ekki má gleyma að skv. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga börn rétt á að láta skoðanir sínar í ljós og taka skal réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börn eiga einnig rétt á því að fá tækifæri til að tjá sig um ákvarðanir sem varða þau með einum eða öðrum hætti skv. sama samningi.

Aðgerðir sem þessar sýna enn og aftur hversu mikilvægt er að lögbinda starfsemi félagsmiðstöðva. Okkur öllum hjá Samfés er umhugað um stöðu barna og ungmenna, þeirra velferð og vellíðan. Samfés, landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa, ungmennaráð

Samfés og fulltrúaráð Samfés skora á Reykjavíkurborg að endurskoða þessa ákvörðun. Á sama tíma hvetjum við öll sveitarfélög landsins til að setja hagsmuni barna og ungmenna í forgang og efla vandað og faglegt frítímastarf barna og ungmenna.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka