Ekki eins og þægur hundur við lappir Sólveigar

Vilhjálmur vandar Sólveigu ekki kveðjurnar á Facebook.
Vilhjálmur vandar Sólveigu ekki kveðjurnar á Facebook. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Formaður Eflingar veður í villu ef hún heldur að ég myndi liggja eins og þægur heimilishundur við lappirnar á henni og ekki gera neitt nema með hennar leyfi,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, í nýrri færslu á Facebook-síðu sinni. Þar ítrekar hann jafnframt að Efling hafi ekki skilað samningsumboði sínu til SGS heldur hafi félagið viljað semja eitt og sér fyrir sína félagsmenn.

„En núna kemur formaður Eflingar fram og segir nánast að Starfsgreinasamband Íslands mátti ekki semja fyrir sína félagsmenn, nema með leyfi Eflingar af því þau studdu mig til formennsku í SGS. Hún gleymir að ég er formaður Starfsgreinasambands Íslands allra 19 aðildarfélaga SGS sem eru vítt og breitt um landið.“

Í færslunni bregst Vilhjálmur við ummælum sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, lét falla í viðtali við mbl.is fyrr í dag. Sólveig sagði Vilhjálm vera formann SGS vegna stuðnings hennar og félagsmanna Eflingar, en samt dytti henni ekki í hug að leggjast svo lágt að segja að hann hafi stungið hana í bakið, þó hann hafi gert Samtökum atvinnulífsins (SA) tilboð um kjarasamning án þess að leita eftir samþykki eða samvinnu við Eflingu.

Þurfa ekki leyfi frá Eflingu til að semja

Vilhjálmur segist hafa verið búinn að ákveða að svara ekki frekari rangfærslum eða aðfinnslum Sólveigar vegna vinnu við nýjan kjarasamning SGS og SA, en hafi ekki getað setið á sér.

„En svona yfirgang, frekju og stjórnsemi get ég ekki látið átölulaust því ég er formaður allra aðildarfélaga SGS ekki bara Eflingar!“

Hann segir það liggja fyrir að formenn þeirra 17 aðildarfélaga sem skiluðu umboði sínu til SGS hafi viljað ganga frá skammtímasamningi því hann hafi verið hagfelldur fyrir félagsmenn. Aðildarfélögin þurfi ekki leyfi frá formanni Eflingar til að gera kjarasamning.

Hvetur hann Sólveigu jafnframt til að axla sína ábyrgð og ganga frá nýjum kjarasamningi fyrir sína félagsmenn. „En eitt er víst að ekki mun ég skipta mér af þeirri vinnu eða niðurstöðu og mun klárlega ekki reyna að skemma og afvegaleiða þá vinnu ykkar eins og þið hafið ástundað á liðnum dögum,“ segir Vilhjálmur og biðlar til Sólveigar að gefa SGS frið til að kynna nýjan skammtímasamning fyrir sínum félagsmönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert