Meirihluti ríkisstofnana fór strax í hámarksstyttingu vinnuvikunnar, án þess að fylgt væri eftir markmiðum um gagnkvæman ávinning, skilvirkni og gæði þjónustu.
Ráðist var í styttingu vinnuvikunnar í kjölfar kjarasamninga 2019-2020, en hún var stytt úr 40 stundum allt niður í 36 stundir á viku.
Þetta kemur fram í greiningu KPMG sem unnin var fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þar segir einnig að í ríkiskerfinu skorti árangurs- og framleiðnimælingar.
Það þurfi almennt að skerpa á markmiðasetningu og auka yfirsýn stjórnenda, svo hægt sé að innleiða verklag í því sambandi.
Innan flestra stofnana telur fólk að heimsfaraldurinn hafi hrint af stað hröðum breytingum og gert innleiðingu vinnutímabreytinga og hámarksstyttingu auðveldari.
Í mati KMPG segir að margar stofnanir hafi hvorki verið af þeirri stærð, né haft mannauð og skipulag til þess að takast á við jafn viðamiklar breytingar og felast í þeim vinnutímabreytingum sem um ræðir.
Fimm megintækifæri til umbóta eru dregin fram; bætt nýting verkfæra um opinber fjármál, aukinn stuðningur við stofnanir, efld árangursstjórnun og eftirfylgni ráðuneyta, samstillt rekstrarmódel með aukinni skilvirkni og samræmingu í stofnanakerfinu og aukin áhersla á þjónustu og virðisaukandi starfsemi.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hyggst nýta þessa niðurstöðu við gerð næstu kjarasamninga.