Miðað við síðustu veðurspár heldur kuldakastið áfram um helgina og verður að minnsta kosti framan af næstu viku. Helsta tilbreytingin er sú að það mun hvessa almennt frá því sem nú er.
Frá þessu greinir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á Facebook. Tekur hann dæmi og deilir spá um vinda og veður fyrir Selfoss af veðurvefnum Bliku.
Samkvæmt henni verður á milli tíu til þrettán gráða frost á Selfossi frá föstudegi og fram á miðvikudag í næstu viku.
Einar bendir þó líka á að um hádegi á þriðjudag er spáð tuttugu gráða frosti, ef einnig er litið til vindkælingar.
„Sjálfur hef ég frekar talað gegn því með ýmsum rökum að reikna statt og stöðugt áhrif vindkælingar á hita,“ skrifar Einar. „Kemur þó fyrir að ágætt sé að hafa vindkælinguna í huga. Hún er hugsuð sem kæling á óvarða húð, m.a. til að veljast ofkælingu eða kali.“
Það sé einmitt í kuldaveðri að vetri sem gagnlegt geti verið að horfa til kælingar vindsins.
„Ekki bara fyrir mannfólkið heldur líka hirðingu á skepnum utanhúss. Ekki síður fyrir þá sem stjórna og reka hitaveitur, en þar þekkja menn það vel að vatnsnotkun er mun meiri í 5 stiga frosti í vindnæðingi heldur en þegar er hægviðri.“
Hann segir að lokum:
„Vissulega búið að vera talsvert kalt að undanförnu, en ljóst að gangi spáin eftir verður þetta kuldakast að vetri með því mesta það sem af er öldinni á landsvísu.“