Þarf að sætta sig við pissukeppni á þingi

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir það vissulega vonbrigði að umræðu um …
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir það vissulega vonbrigði að umræðu um málið hafi verið frestað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það klárast þá bara í janúar, það er ekkert öðruvísi,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra um útlendingafrumvarpið sem tekið hefur verið af dagskrá þingsins fyrir jól. Málið verði tekið fyrir strax þegar þing kemur saman eftir áramót.

Hann segir það þó vissulega vonbrigði að annarri umræðu um frumvarpið hafi verið frestað en það kom í ljós fyrr í dag þegar samkomulag náðist um þinglok. Stjórnarandstaðan, þá sérstaklega Píratar, kölluðu eftir því að umræðu um frumvarpið yrði frestað, en málið var afgreitt í ágreiningi úr allsherjar- og menntamálanefnd í síðustu viku.

„Jú jú, auðvitað eru það vonbrigði“

„Jú jú, auðvitað eru það vonbrigði. Það er mikilvægt að þetta mál klárist, við erum að taka hér á móti þúsundum flóttamanna og erum með óskilvirkt kerfi að mörgu leyti. Það eru mjög mikilvægar breytingar í þessu frumvarpi sem þurfa að nást í gegn, en svona málþóf og annað í þinginu sem er til þess fallið að tefja málið, það dregur verulega úr afköstum þingsins,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

„Það er meirihluti fyrir þessu máli en það er einhver pissukeppni þar sem togast er á um að hafa þetta með þessum hætti og það verður maður bara stundum að sætta sig við í þinginu. Það er ekkert öðruvísi,“ bætir hann við.

Nánast tilbúið til lokaafgreiðslu 

Jón segir mega orða það þannig að þetta hafi verið lendingin til að greiða fyrir afgreiðslu annarra mála fyrir þinglok.

„Það er meirihluti fyrir þessu máli, það er aðalatriðið, það er komið út úr nefnd og tilbúið í lokaafgreiðslu nánast í þinginu. En einhverjum líður betur með að það gerist í janúar heldur en núna og þegar tíminn er orðinn naumur í aðdraganda áramóta þá varð niðurstaðan.“

Í fréttatilkynningu sem Píratar sendu frá sér eftir hádegi sögðust þeir „fagna þessum áfangasigri í baráttunni gegn mannfjandsamlegu frumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur“ og vonast til að friðsælar stundir á jólahátíðinni gerðu stjórnarliðum kleift að endurskoða afstöðu sína í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert