Þegar hús fuku í heilu lagi

Skömmu fyrir jólin 1972 gerði ofsaveður og féll mastur í …
Skömmu fyrir jólin 1972 gerði ofsaveður og féll mastur í Búrfellslínu 1 við Hvítá. Mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Eftirminnilegt ofsaverður gekk yfir landið rétt fyrir jólin 1972 og náði það hámarki að kvöldi 21. desember og nóttina þar á eftir. Tjón varð víða um land, meðal annars á Búrfellslínu, með þeim afleiðingum að skammta þurfti rafmagn á höfuðborgarsvæðinu. Hús fuku í heilu lagi.

Hún lét svo sem ekki mikið yfir sér, eindálksfrétt á baksíðu Morgunblaðsins föstudaginn 22. desember 1972, en innihaldið var eigi að síður ríkt og upptaktur að mun meiri fréttaflutningi næstu daga:

„Ofsaveður gekk yfir Suðurland seint í gærkvöldi og fylgdi því rafmagnsleysi. Í Reykjavík voru þök tekin að fjúka af húsum um allan bæ, t.d. fauk þakið af Dvalarheimili aldraðra sjómanna, og víða tepptist fólk í veðrinu eða varð að leita skjóls þar sem það var statt. Þurfti lögreglan víða að aðstoða fólk, og sagði varðstjóri lögreglunnar að það jaðraði við neyðarástand. Þá fékk blaðið þær fréttir frá Eyrarbakka að þar væri veðrið eitt hið ofsalegasta sem gengið hefði yfir, og tók heilu skúrana þar á loft upp í verstu hrinunum. Ekki var Morgunblaðinu kunnugt um slys á fólki, þegar það fór í prentun í nótt.“

Daginn eftir lágu mun ítarlegri upplýsingar fyrir og þá lagði Morgunblaðið alla forsíðuna undir óveðrið með fimm dálka ljósmynd. Það undirstrikar vigt málsins en á þessum árum var forsíðan alla jafna helguð erlendum fréttum.

Ofsaveðrið olli gífurlegum skemmdum víða um land. Hús fuku í heilu lagi, þök tók af húsum og á bænum Gilhaga í Axarfirði drápust milli 40 og 50 kindur, er fjárhús hrundi. Miklar skemmdir urðu á gróðurhúsum á Suðurlandsundir­lendi og í Hveragerði brotnuðu rúður og víða í gróðurhúsum. Þá urðu víða miklir heyskaðar og missti bóndinn á Hallgilsstöðum í Sauðaneshreppi nær allt sitt hey, er hlaða hans fauk, full af heyi, og það hvarf út í buskann. Í Þingeyjarsýslum fuku víða útihey. „Ljóst er, að tjónið af völdum veðursins hefur orðið gífurlegt,“ sagði Morgunblaðið.

Nánar er fjallað um ofsaveðrið fyrir jólin 1972 í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert