Búast má við að hreinsun húsagatna í Reykjavíkurborg taki fjóra til fimm daga en vetrarþjónustan byrjaði að ryðja þær götur í gær og heldur sú vinna áfram í þessari viku. Alltaf er lögð áhersla á að vinna í öllum hverfum samhliða svo engin hverfi verði út undan. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Göturnar í borginni sem verið er að ryðja eru samtals 1200 kílómetrar að lengd en þess má geta að það er hátt í allur hringvegurinn. Þar af eru húsagöturnar 240 kílómetrar sem er um það bil leiðin milli Reykjavíkur og Blönduóss. Í stígakerfinu er síðan verið að snjóhreinsa í kringum 800 kílómetra sem er svipað og vegalengdin til Raufarhafnar.
Um helgina var allt tiltækt lið vetrarþjónustu borgarinnar að störfum. Í tilkynningunni segir að stofnbrautir séu færar og að strætóleiðir séu í forgangi hvað þjónustu varðar. Sumar stofnbrautir eru þröngar en það verður farið í að víkka þær út á næstunni.
Vinna við að ryðja stígana er hafin en búið er að taka eina umferð í þjónustuflokki eitt, en í þann flokk falla þeir samgöngustígar sem mest eru notaðir. Verið er að vinna í öðrum stígum samkvæmt forgangsröðun.
Þar sem hiti er í stígum hafa hitakerfi ekki ráðið við þennan mikla kulda og hefur þurft að hálkuverja þær leiðir og byrjaði sú vinna í gær og stendur áfram yfir í dag. Samkvæmt venju voru hjólastígar hálkuvarðir alla helgina og svo aftur nú í morgunsárið frá því um klukkan fjögur í nótt.
Þá eru íbúar hvattir til að huga að sínu nærumhverfi, moka tröppur og huga að gönguleiðum enda er frost í kortunum næstu daga.