Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, segir það óásættanlegt að Reykjavíkurborg hafi einungis náð að koma níu snjómoksturstækjum á götur borgarinnar um síðustu helgi. Eins og fram kom í samantekt mbl.is í gær voru það álíka mörg tæki og nágrannasveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu voru með hvert um sig.
„Mér finnst viðbragð borgarinnar vera of vanmáttugt. Við erum með samninga um of fá tæki og við þurfum að eiga tæki til þess að geta brugðist sjálf við líka,“ segir Einar og bætir við að húsagötur þurfi jafnframt að vera í meiri forgangi þegar kemur að snjóhreinsun.
Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélögunum sem mbl.is safnaði saman í gær voru í heildina 19 snjómoksturstæki að störfum yfir helgina í Hafnarfirði, 20 í Kópavogi og 10 í Garðabæ.
Til samanburðar voru 22 snjómoksturstæki að störfum í Reykjavík, þar af 13 á hjóla- og göngustígum. Voru því einungis níu á götum borgarinnar þar sem að ryðja þarf í heildina um 1.200 kílómetra vegalengd. Þar af telja húsagöturnar samtals 240 kílómetra.
Í Hafnarfirði þurfa snjómoksturstækin aftur á móti að ryðja 180 kílómetra vegalengd og þar af eru 80 kílómetrar af húsagötum. Í Garðabæ þurfa snjómoksturstækin að ryðja 100 kílómetra, og er helmingurinn húsagötur.
Upplýsingar um kílómetrafjöldann sem þarf að ryðja í Kópavogi liggja ekki fyrir en ljóst er að Reykjavíkurborg var með hlutfallslega fæst snjómoksturstæki að störfum yfir helgina, sama hvort tekið er mið af íbúafjölda eða stærð sveitarfélagsins.
„Ég held að þau hafi bara verið með meiri viðbúnað. Þau eru með samninga greinilega um fleiri tæki, geri ég ráð fyrir. Ég þekki ekki samninga hjá öðrum sveitarfélögum en þeim tekst greinilega að fá fleiri tæki út á göturnar og verja til þess talsverðum fjármunum og það er þeirra val.
Við þurfum að gera hið sama, við þurfum að fjölga tækjunum á götunum til að komast í öll þau hverfi þar sem umferð er núna stopp,“ segir Einar, spurður hvers vegna viðbragð borgarinnar yfir helgina hafi verið með þessum hætti miðað við stærð og umfang verkefnisins.
„Það er verið að moka húsagöturnar núna en mér finnst þetta vera of seint. Við eigum að vera fyrr á ferðinni með ruðningstækin inni í húsagöturnar,“ bætir hann við.
Ekki hefur náðst í Dag B. Eggertsson borgarstjóra vegna málsins.