„Þetta er fólkið sem er að berjast við að koma undir sig fótunum og má síst við auknum útgjöldum og þjónustuskerðingum. Tvöfaldar hækkanir á barnafjölskyldur og viðkvæma hópa sem minnstar hafa tekjurnar og er kannski á leigumarkaði. Þetta er eiginlega tíu prósent hækkun á þremur mánuðum. Hvað gerist í júní?,“ spyr Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG sem furðar sig á því að borgaryfirvöld í Reykjavík ætli að hækka leikskólagjöld um áramótin. Leikskólagjöld hækka um 4,9% og fæðisgjöld um annað eins. Leikskólagjöld í borginni voru hækkuð um 4,5% í byrjun september og því er um tvöfalt högg að ræða fyrir fjölskyldufólk í borginni. „Til að snúa við neikvæðri stöðu borgarsjóðs ætla þau í meirihlutanum að seilast í vasa barnafjölskyldna,“ segir Líf ennfremur.
Miklar hækkanir á opinberum gjöldum skella á landsmönnum um komandi áramót. Svokallaðir krónutöluskattar hækka um 7,7% að þessu sinni. Þetta þýðir til að mynda að hið umdeilda útvarpsgjald er skriðið yfir 20 þúsund krónur á hvern skattgreiðanda og hver rauðvínsflaska og hver bjórdós mun kosta umtalsvert meira eftir áramót en nú er og þótti sjálfsagt flestum nóg um fyrir. Krónutöluskattar ríkisstjórnarinnar leggjast einnig þungt á þá sem kjósa að ferðast um með einkabíl. Eldsneytisgjöldin hækka um 7,7% og samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda fyrir Morgunblaðið mun hækkun á hvern bensínlítra nema 8,56 krónum og 7,63 krónum á hvern dísillítra.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.