Frá 17. desember eru skráðar 83 aðgerðir Slysavarnafélagsins Landsbjargar um allt land og tóku 633 félagar frá 63 björgunarsveitum þátt í þeim. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsbjörg.
Segir þar enn fremur að 163 björgunartæki hafi verið notuð við aðgerðirnar, mest breyttir jeppar og snjóbílar en einnig stærri trukkar.
„Við áætlum að á fimmta þúsund manns hafi verið aðstoðaðir með beinum eða óbeinum hætti þessa daga. Á Grindavíkurvegi var 1.200 manns komið til aðstoðar og hjálpað í skjól, um 1.500 manns voru aðstoðaðir í Reykjanesbæ og auk þess um 2.000 farþegar sem voru strandaglópar í Leifsstöð,“ segir í tilkynningu Landsbjargar.
Þá aðstoðuðu björgunarsveitirnar fólk við að komast til vinnu þar sem brýna nauðsyn bar til, svo sem heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk viðbragðsaðila. Fjöldahjálparstofnanir voru opnaðar víða. Hér eru nokkur dæmi um verkefni björgunarsveita síðustu daga:
Björgunarsveitir aðstoðuðu við flutning aðfanga fyrir fjölmörg fyrirtæki þar sem hætta var á alvarlegum rekstrartruflunum með miklum áhrifum.
Jeppar og snjóbílar björgunarsveita aðstoðuðu fjölda sjúkrabíla á leið í sjúkraflutninga, annað hvort með því að ryðja braut fyrir þá eða draga. Þessi tæki voru einnig nýtt til að flytja lögreglu í sín verkefni, verkefni ekki tengd óveðri.
Snjóbílar voru notaðir til að losa snjóruðningstæki, við vaktaskipti hjá lögreglu og slökkviliði. Stór tæki voru nýtt í að losa rútur. Fjöldi aðstoðarbeiðna undanfarna daga var slíkur að nauðsynlegt var að forgangsraða þeim með tilliti til alvarleika og mikilvægis.