Kristófer Oliversson, formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, segir ótvírætt að til lengri tíma litið hafi raskanir, eins og þær sem orðið hafa síðustu daga, slæm áhrif á ímynd Íslands sem áfangastaðar.
Flug til og frá landinu hefur riðlast mjög og var Reykjanesbrautin verið lokuð í nokkra daga eins og fram hefur komið.
„Í sinni einföldustu mynd má segja til skemmri tíma að hótelin fyllast því hýsa þarf alla gesti en því fylgir mikið stress að koma öllum í hús eins og var um helgina. Til lengri tíma litið hefur það afar slæm áhrif að geta ekki afhent þá vöru sem við höfum lofað og selt.
Þannig er það í öllum viðskiptum. Það gerist auðvitað ef gestirnir komast ekki og þeirra áætlanir riðlast. Slíkt hefur auðvitað alltaf neikvæð áhrif. Það er alveg ótvírætt,“ sagði Kristófer þegar mbl.is hafði samband við hann.
Reykjanesbrautin hefur nú verið lokuð í nokkra daga vegna ófærðar með tilheyrandi raski enda umferðaræð til og frá alþjóðaflugvellinum í Keflavík. Kristófer segist ekki hafa þekkingu á því hvað nákvæmlega þurfi til að halda veginum opnum en segist treysta því að fundað verði um hvort hægt sé að gera betur í þeim efnum.
„Á þessu landi er erfitt að komast hjá því að lenda í einhverjum vandræðum vegna veðurs. Mér fannst Bogi Nils [Bogason forstjóri Icelandair] koma ágætlega inn á þetta með hófsömum hætti eins og hans er háttur. Þegar hann sagði að nú þyrfti að setjast niður og fara yfir þessar lokanir á Reykjanesbraut.
Hvernig ætlum við að bregðast við í framtíðinni? Menn þurfa að ræða hvort hægt sé að halda þessu opnu að einhverju leyti eða hversu langt er hægt að ganga í því. Ég hefði kannski haldið að hægt væri að fylgja rútum yfir en það er engin leið fyrir mig að dæma um það.“