Fjölmiðlarnir Kjarninn og Stundin hafa ákveðið að sameinast og verður nýr fjölmiðill með nýju nafni til á nýju ári. Ritstjórar verða Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Þórður Snær Júlíusson.
„Áhersla verður lögð á rannsóknarblaðamennsku, greiningar og daglegar fréttir frá sjónarhóli almennings fremur en sérhagsmuna,“ segir á vefsíðu Kjarnans.
Kjarnastarfsemi nýja fjölmiðilsins verður dagleg fréttasíða og prentútgáfa sem kemur út tvisvar í mánuði. Fyrirhugað er að fyrsta útgáfan komi út 13. janúar næstkomandi.
Eigendahópur fjölmiðilsins mun telja á fjórða tug einstaklinga, bæði starfsmanna og áhugafólks um fjölmiðlun. Enginn fer með meira en tíu prósenta eignarhlut.