Snjórinn komið borginni í „algerlega í opna skjöldu“

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir borgaryfirvöld fyrir úrræðaleysi í snjómokstri.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir borgaryfirvöld fyrir úrræðaleysi í snjómokstri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurborg fær falleinkunn í snjómokstri að sögn Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Bar hann upp málefni snjóhreinsunar á borgarstjórnarfundi í gær og gagnrýndi harðlega skipulag og frammistöðu yfirstjórnar borgarinnar í málaflokknum.

Kjartan segir í samtali við mbl.is að tuga sentímetra snjódýpt ætti ekki að koma neinum á óvart í nyrstu höfuðborg heims.

Kom borginni í opna skjöldu

„Hún virðist þó hafa komið borgaryfirvöldum algerlega í opna skjöldu. Síðastliðinn föstudag, 16. desember, lá fyrir að mikil snjókoma yrði um kvöldið og nóttina í borginni og var spáð 25-30 sentímetrum af jafnföllnum snjó.“

Þrátt fyrir þessa spá hafi ekki verið brugðist nægilega vel við með þeim afleiðingum að neyðarástand skapaðist í mörgum hverfum borgarinnar á laugardag.

Hefði þurft að kalla út fleiri aukaverktaka 

„Reykjavíkurborg hefði þurft að kalla út miklu fleiri aukaverktaka í snjóruðning um helgina, til aðstoðar föstum verktökum, en gert var. Með myndarlegri hjálp einkaaðila hefði þannig verið hægt að stórauka afköstin og vinna á snjónum meðan hann var enn nýfallinn og meðfærilegur,“ segir Kjartan.

Gullna reglan við snjóhreinsun felist í því að setja mestan kraft í verkið meðan snjór er nýfallinn, ótroðinn og meðfærilegur og því nauðsynlegt að hafa hraðar hendur.

„Eins og síðasta vetur fær Reykjavíkurborg falleinkunn í skipulagningu snjóhreinsunar og greinilegt er að það þarf að stórbæta hana. Ánægjulegt er að formaður borgarráðs hafi viðurkennt vandann, sýnt vilja til að endurskoða og bæta skipulag snjóhreinsunar með viðeigandi aðgerðum. Er það mikil breyting til batnaðar frá síðasta vetri þegar borgarstjóri fór í felur vikum saman til að þurfa ekki að svara fyrir frammistöðuleysi og slakt skipulag í málaflokknum,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert