Þrekvirki unnið við að koma 17 vélum í loftið

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Forstjóri Icelandair segir að þvervirki hafi verið unnið við að koma 17 flugvélum í loftið seinnipartinn í gær og í gærkvöldi eftir að Reykjanesbrautin opnaðist. 

Um var að ræða fjórar brottfarir til Tenerife, eina til Las Palmas, eitt flug til Kaupmannahafnar, annað til London Heathrow og 11 brottfarir til Norður-Ameríku, að því er segir í tilkynningu frá Icelandair. 

„Það er óhætt að segja að með samstilltu átaki starfsfólks hafi þrekvirki verið unnið við að koma 17 vélum í loftið seinnipartinn í dag og í kvöld. Sem betur fer er útlitið að batna og við vinnum hörðum höndum að því að finna leiðir til að koma öllum viðskiptavinum okkar á áfangastað fyrir hátíðarnar. Okkur þykir miður að þessar aðstæður hafi komið upp á þessum viðkvæma tíma ársins og vil ég þakka farþegum okkar fyrir þolinmæðina og skilninginn, og starfsfólki okkar fyrir að leggjast öll á eitt til að leysa úr þessum krefjandi aðstæðum,“ segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair í tilkynningunni, sem var birt í gærkvöldi. 

Tæknibilun kom upp í flugi til Denver í gærkvöldi sem sneri við til Keflavíkur og var flugið í kjölfarið fellt niður.

Félagið ferjaði þar að auki farþega með Boeing 757-vél frá Keflavík til Reykjavíkur rétt eftir hádegi í gær og flutti áhafnir til baka til Keflavíkur til að manna millilandaflug kvöldsins. Þá flutti félagið jafnframt um tvö tonn af mat til að fylla á matarbirgðir hjá þjónustuaðilum á Keflavíkurflugvelli.

Fram kemur að útlitið sé ágætt í dag en þó megi búast við einhverjum röskunum á flugi og eru farþegar beðnir að fylgjast vel með flugupplýsingum. Unnið er að endurbókunum og munu farþegar fá send skilaboð þegar ný ferðaáætlun liggur fyrir.

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Allt kapp er lagt á að koma fólki á áfangastað nú þegar aðstæður hafa batnað. Félagið hefur meðal annars gengið frá leigu á tveimur breiðþotum með áhöfnum sem verða nýttar í leiðakerfi Icelandair næstu daga. Athygli er vakin á því að skert þjónustustig er um borð í leiguvélunum þar sem um skammtímaleigu er að ræða,“ segir í tilkynningunni.

Einnig hafa orðið talsverðar raskanir á innanlandsflugi undanfarna daga en veðurútlit er gott fyrir daginn í dag og hefur Icelandair bætt fjölmörgum ferðum við til Egilsstaða, Akureyrar og Ísafjarðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert