„Kannski dálítið ríflegt“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það skynsamlegt að fara yfir hvernig orlofsmálum sé almennt háttað hjá ríkisstofnunum, er hún er spurð út í fjögurra daga aukafrí sem starfsfólki Hagstofunnar var gefið yfir hátíðarnar.

Ákvörðun forstjóra stofnunarinnar hefur í kjölfarið verið gagnrýnd.

„Ég veit að það eru dæmi um það að stofnanir og fyrirtæki gefi starfsmönnum sínum auka frí í aðdraganda jóla. En þetta er kannski dálítið ríflegt,“ segir Katrín.

Hún kveðst vilja skoða málið betur áður en hún taki afstöðu til ákvörðunarinnar. Skoða þurfi þessi mál vel, meta hvert hefðbundið svigrúm stjórnenda sé og hvernig megi betur samræma orlofsmál á milli ríkisstofnana og almenna vinnumarkaðarins.

Sömu lögmál ekki gilt

Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi hjá Samtökum atvinnulífsins, vakti athygli á því í gær að orlof starfsmanna hins opinbera væri í raun sex dögum lengra en gengur og gerist á almennum vinnumarkaði. Ofan á það koma þessir fjórir dagar sem greint var frá að ofan.

Hvað telur þú skýra þennan mun?

„Það eru ekki alveg sömu lögmál sem hafa gilt um almenna og opinbera vinnumarkaðinn,“ segir Katrín og nefnir meðal annars mismunandi laun stjórnenda og launamun kynjanna.

„Við höfum verið að reyna að færa þessa tvo anga vinnumarkaðarins nær hvor öðrum á undanförnum árum, með því bæði að vísa til dæmis í kjarasamninga á milli markaða og eins að jafna lífeyrisréttindi. Eitt af því sem hefur verið til umræðu er að jafna launakjör, hvernig við gerum það sem best.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert