Varaformaður Fjölskylduhjálpar segir að sér sé ofboðið að Fjölskylduhjálp sé bendluð við rasisma. Ekki hafi staðið til að neita erlendum skjólstæðingum um mat.
Bað hún sjálfboðaliða að rita færslu á Facebook þess efnis að íslenskir skjólstæðingar fengju mat fyrst en síðan erlendir ríkisborgarar með íslenska kennitölu.
Færslan vakti mikla reiði og krefjast Samtök kvenna af erlendum uppruna þess að stjórn samtakanna segi af sér vegna hennar og benda á að hún mismuni fólki á grundvelli þjóðernis.
„Við ætluðum að skipta þessu í tvo hópa sem við höfum aldrei gert fyrr. Við erum að gera þetta til þess að hlífa sjálfboðaliðunum okkar,“ segir Anna Valdís Jónsdóttir, varaformaður Fjölskylduhjálpar og verkefnastjóri samtakanna á Reykjanesi.
Hvers vegna er fólk flokkað með þessum hætti?
„Upp á hvert einasta ár fyrir jól höfum við bara haft einn dag til úthlutunar. En við erum þá að úthluta jafnvel klukkan hálfeitt að næturlagi. Það er ekki boðlegt fyrir okkar sjálfboðaliða. Vinna frá 8 að morgni til miðnættis, það er ekki hægt,“ segir Anna og bætir við að um fjórar til fimm klukkustundir hafi tekið að afgreiða 100 manns og því hafi þurft að skipta hópnum í tvennt. Segir hún að það hefði einnig verið gagnrýnt hefðu Íslendingar verið í seinni hópnum.
Hefði verið hægt að hafa opið í styttri tíma, hleypa öllum að og halda áfram daginn eftir?
„Við ætluðum að gera þetta svona og það yrði ekki neitt vandamál. Það er meira af fullorðnu íslensku fólki heldur en fullorðnu erlendu fólki. Það er meira af jafnvel einhleypum mönnum sem frekar geta staðið úti heldur en gamla fólkið okkar. Ég er búin að útspekúlera þetta fram og til baka, ég er búin að vera í þessu í fjórtán ár. Og við erum aldrei búin fyrr en um miðnætti. Og er það boðlegt fyrir okkur? Nei, það finnst mér ekki,“ segir hún.
Anna segir bílinn með matargjafirnar ekki hafa komist til Fjölskylduhjálpar í gær þar sem mikið veður hafi verið á Reykjanesbrautinni. Því stefni í að allur dagurinn fari í matarúthlutun og hópnum verði ekki skipt upp.
„Að kalla okkur rasista er svo langur vegur frá. Þetta eru mín orð, sem ég læt minn sjálfboðaliða skrifa á tölvuna. Ef einhver kallar þetta skít sem ég hef sett þarna inn, þá á ég þennan skít. Sem ég skammast mín ekki fyrir. Það er svo langur vegur frá að Ásgerður eigi þetta sem ég bar út á Facebook,“ segir hún, en Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands hefur verið gagnrýnd vegna málsins.
„Ég er búin að vera að vinna frá klukkan hálf átta í morgun og komin hálf níu í hús. Verði þessum Pírötum að góðu, ég vona að þeir komi að hjálpa okkur á morgun,“ segir Anna að lokum.