Hávaði gæti farið í 100 desíbel

Árlega vaknar upp sama spurningin: Að sprengja eða ekki sprengja?
Árlega vaknar upp sama spurningin: Að sprengja eða ekki sprengja? mbl.is/Ómar Óskarsson

Fólk er hvatt til þess að hlífa sér, börnum sínum og gæludýrum frá hávaða á áramótunum, sem getur farið yfir 100 desíbel þegar mest lætur.

Ráðlegt er að festa kaup á heyrnaskjólum fyrir börn, að sögn Svövu S. Steinarsdóttur, heilbrigðisfulltrúa hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. 

Fór í 140 desíbel á Rammstein

„Við mælum eindregið með því að fólk reyni að vernda eyrun við þessar aðstæður. Sérstaklega ef sprengja á tertur á jörðinni,“ segir Svava en þá séu upptök hávaðans sérstaklega nálægt fólki. 

Minnist hún þess að ein hæsta hávaðamælingin hafi verið þegar Rammstein skaut upp eldvörpum og reyksprengjum á tónleikum í Kórnum í Kópavogi árið 2017 og hafi hávaðinn þá farið í 140 desíbel. „Því stærri sem flugeldurinn eða tertan er, því meiri hávaði. Ég get ímyndað mér að hæstu hljóðtopparnir geti farið vel yfir 100 desíbel,“ segir Svava. 

„Sorglegt að við köllum þetta yfir okkur sjálf“

Rusl, svifryksmengun og taugaveikluð gæludýr eru vandamál sem við sköpum okkur sjálf á áramótunum og er besta leiðin til þess að vinna á þeim bug að skjóta minna upp.. „Það er sorglegt að við séum að kalla þetta yfir okkur sjálf,“ segir Svava. Bendir hún á að dýrin okkar séu þar ekki undantekning.

„Það eru dæmi um að hross hafi tryllst, slasast eða dáið,“ segir Svava og bætir við að gæludýr týnist einnig reglulega yfir áramótin. Þegar allt kemur til alls þurfi landsmenn að huga að flugeldanotkuninni og verja sig sjálfa fyrir fagnaðarlátum á nýju ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert