Urður Egilsdóttir
Gróf mynd er komin á veðurspá landsins á gamlárskvöld að sögn Eiríks Arnar Magnússonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Samkvæmt henni verða ekki endilega bestu skilyrðin til að sjá flugelda á lofti.
„Það er útlit fyrir austlægar áttir og snjókomu víða eða él, síst á Norðausturlandi. Ekkert endilega neitt mikinn vind en kalt,“ segir hann.
Eiríkur segir að frost verði á bilinu 2 til 15 stig.
Hann segir að mjög líklega muni snjóa á höfuðborgarsvæðinu á gamlársdag, jafnvel um kvöldið.
„Skilyrðin til að sjá flugelda eru því ekki endilega þau bestu. Hvort það stytti upp akkúrat á meðan er spurning, það er alltaf einhver séns.“
Eiríkur segir því að lokum að áramótin hjá flestum muni einkennast af kulda og snjó hvað snertir veður.