Krefst útskýringa frá lögreglu

Sveinn Andri Sveinsson segir að líta verði til úrskurða Landsréttar.
Sveinn Andri Sveinsson segir að líta verði til úrskurða Landsréttar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi annars mannanna sem grunaðir eru um undirbúning að hryðjuverkum, segir ríkislögreglustjóra þurfa að útskýra að hvaða leyti bráð hætta hafi farið framhjá Landsrétti.

Segir hann að hækkað viðbúnaðarstig lögreglu sé samspil af sýndarmennsku og særðu stolti hjá Ríkislögreglustjóra, yfir því að dómstólar hafi ekki keypt málatilbúnað lögreglu. 

Ríkislögreglustjóri hækkaði viðbúnaðarstig úr A í B eftir að mennirnir voru látnir lausir þann 13. desember, eftir úrskurð Landsréttar, að því er tilkynnt var í dag. 

Krefst útskýringa frá lögreglu

„Það er alltaf hættumat sem á sér stað. En auðvitað skipti máli að Landsréttur hafnar gæsluvarðhaldi í fyrra skiptið á þeim forsendum að þeir eru ekki hættulegir sjálfum sér eða öðrum, sem byggir á ítarlegu geðmati dómkvadds matsmanns,“ segir Sveinn Andri.

„Síðan í seinni umferð hafnar Landsréttur gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna. Í þeirri stöðu, þegar ákærði í málinu er búinn að vera í faðmi fjölskyldunnar að stanga hangikjötið úr tönnunum og opna jólagjafir, er lágmark að ríkislögreglustjóri útskýrði að hvaða leyti Landsrétti á að hafa yfirsést þessa bráðu hættu sem er í gangi. Sem réttlætir þetta hækkaða viðbúnaðarstig.“ 

Einu áhrifin af hækkuðu viðbúnaðarstigi séu að það kunni að valda ótta hjá fólki sem sé viðkvæmt fyrir. „Langflestir landsmenn eru búnir að sjá í gegnum þetta.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert