Enn er á huldu hvað olli rafmagnsbilun í spennivirkjun á Stuðlum í Reyðarfirði. Rafmagnslaust hefur verið í bænum frá klukkan hálf átta í morgun vegna þessa. Hús á svæðinu, sem kynt eru með rafmagni, eru tekin að kólna.
Rósant Guðmundsson kynningarstjóri hjá RARIK segir í samtali við mbl.is að unnið sé að því að greina bilunina.
RARIK vinnur nú að því að koma varaafli frá Seyðisfirði og varaspenni frá Akureyri í bæinn. Ófært er um Fagradal og Fjarðarheiði eins og stendur og er því óvíst hvenær viðgerðarmenn komast í bæinn.
Vegagerðin vinnur þó að því að ryðja veginn og að sögn Rósants ætti rafmagn að komast á aftur í bænum í kvöld eða í nótt.
„Vonast er til að koma rafmagni á aftur í gegnum spenni Landsnets en í versta falli mun þetta vara fram á kvöld eða nótt. Þetta er alvarleg staða sem við höfum áhyggjur af og erum á fullu að reyna koma þessu í lag,“ segir hann.
Spurður hvort að möguleiki sé á að rafmagnsleysi muni vara til morguns svarar Rósant því neitandi og segir að verið sé að leita allra leiða til að flytja varaaflið til Reyðarfjarðar.