Funduðu í morgun og fylgjast grannt með útbreiðslunni

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslensk heilbrigðisyfirvöld áttu í morgun fund með fulltrúum Sóttvarnastofnunar Evrópu og fulltrúum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, ásamt öðrum löndum í Evrópu, um útbreiðslu Covid-19. Var þetta gert í ljósi opnunar landamæra í Kína.

Greint var frá því fyrr í dag að heil­brigðisráðuneyti Ítal­íu hef­ði ákveðið að all­ir farþegar sem koma til lands­ins frá Kína verði skimaðir fyr­ir kór­ónu­veirunni.

„Enn sem komið er eru ekki komin nein tilmæli um aðgerðir, en við erum að fylgjast grannt með þessu ástandi,“ segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir. 

Mörg lönd hafa gripið til aðgerða á landamærum, sem gilda um þá sem ferðast frá Kína. Til dæmis Jap­an, Malasía og Taív­an. Bandaríkin hafa tilkynnt að þau muni krefjast neikvæðra Covid-prófa við komu og hert skilyrði hafa verið kynnt til sögunnar á Ítalíu.

Samhæfðar aðgerðir æskilegar

„Ítalía er eina Evrópuríkið sem hefur tekið ákvörðun um aðgerðir. Það er samt frekar verið að mæla með að Evrópa sé með samhæfðar aðgerðir. Það er ekki gagnlegt að lönd séu að gera mismunandi hluti,“ segir Guðrún. 

Með aðgerðum er helst átt við að krefjast ýmist neikvæðra prófa við komu, eða halda úti skimunum á landamærum. 

Guðrún bendir á að Ísland sé ekki með beint flug frá Kína. Fólk þaðan komi hingað frá öðrum löndum, og innan Schengen-svæðisins á fólk að geta ferðast frjálst, hafi því verið hleypt inn í eitt aðildarríkið.

Nýtt afbrigði gæti skapað usla

Ekki hafa komið fram neinar vísbendingar um að það séu önnur eða ný afbrigði af veirunni á kreiki í Kína, að sögn Guðrúnar. Hún slær þó þann varnagla að gögn frá Kína séu afar takmörkuð. 

„Það er samt ekkert sem bendir til þess, en það er það helsta sem við höfum áhyggjur af. Ef það kæmi fram nýtt afbrigði þá gæti það skapað mikinn usla hér og alls staðar í Evrópu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert