Óvíst er hvernig veðrið verður á gamlársdagskvöld. Ljóst er þó að það verður kolófært að morgni gamlársdags á suðvesturhorninu.
Ekki ætti að koma á óvart ef vegir verða ófærir frá allt frá Reykjanesi og austur að Vík, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings.
Einar skrifar á veðurvef sinn Bliku að klukkan 6 að morgni gamlársdags geri spár ráð fyrir suðaustanátt, um 10 m/s, og snjókomu á höfuðborgarsvæðinu.
Mestur verði vindurinn í efri byggðum um morguninn og ófærðin muni ráðast mest af styrk vindsins.
Hann segir að teljast verði líklegt að á gamlársdagsmorgun verði allt kolófært á höfuðborgarsvæðinu, jafnt á húsagötum sem á stofngötum.
Líklega verði flestir vegir ófærir frá Reykjanesi að Vík, innanbæjar sem og á milli bæjarfélaga.
Meiri óvissa er um framhaldið, en hvesst gæti aftur með éljum eða snjókomu þegar líður á daginn eða um kvöldið.
„Það sem er nokkuð ljóst í þessu er að það verður bylur með skafrenningi og ofankomu að morgni gamlársdags. Af því hlýst talsverð ófærð og síðan stefnir lægð á höfuðborgarsvæðið og Reykjanesið um kvöldið,“ segir Einar.
„Það er ómögulegt að segja á þessari stundu hvað kemur til með að fylgja í því farteski en þetta er eitthvað sem við sjáum ekki fyrr en á gamlársdagsmorgun.“