Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra minntist á það í áramótaávarpi sínu að er hún hóf þátttöku í stjórnmálum fyrir tuttugu árum hafi eldri maður gefið henni ráð, að til þess að hún yrði tekin alvarlega þyrfti hún að gæta að tala ekki um og of um „mjúku málin“.
Í því samhengi nefndi hún jafnrétti, tungumál, börn, hamingju og umhverfisvernd, en hún minntist einmitt á öll þau málefni í ávarpi sínu og sagði að líkt og aðrir Íslendingar væri hún gjörn að fara þveröfugt á það sem henni er sagt.
Katrín sagðist hafa lagt sig fram í gegnum tíðina að tala sérstaklega um einmitt þessi mál.
Hún minntist á þær tæknibreytingar sem hafa orðið og hvernig tungumálið gegni þar lykilhlutverki. Tryggja þurfi að íslenskan verði gjaldgeng í heimi gervigreindar og snjalltækja en til þess þurfi fjármagn.
Þá minntist Katrín á að andleg líðan barna eigi undir högg að sækja, sérstaklega hafi líðan versnað í heimsfaraldrinum.
Hún sagðist sjálf fegin að hafa sloppið við þá pressu sem fylgi samfélagsmiðlum á sínum unglingsárum. Katrín sagði mikilvægt að við skiljum tæknina og áhrifin hennar og að foreldrar leiðbeini börnum.
Líkt og búast mátti við minntist Katrín á stríðið í Úkraínu og sagði það sýna hversu mikilvægt alþjóðlegt samstarf sé.
Hún sagði Íslendinga vera svo lánsama að eiga hita- og rafveitu sem sýni sig að sé velsældar og öryggismál.
Einnig minntist Katrín á kjaraviðræður og sagði að samningsaðilar hafi lagt mikið á sig til að landa farsælum samningum á óvissutímum.
Þá sagði hún að loftslagsváin sé enn til staðar og hafi ekki farið neitt á meðan heimsfaraldurinn stóð yfir.