Öllu máli skiptir að halda áfram að ná niður verðbólgunni segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu í gær.
„Þrátt fyrir að verðbólga sé hér einna minnst í Evrópu skiptir öllu máli að ná henni áfram niður. Til þess þarf samhent átak en stöðugleiki er markmið sem á að vera hægt að sameinast um. Gott leiðarljós við þær aðstæður sem nú hafa skapast er að sígandi lukka er best. Góð tíðindi af kjarasamningum nú fyrir hátíðarnar gefa fyrirheit um að við séum á réttri braut. Hins vegar skiptir máli að við gefumst ekki upp á því mikilvæga verkefni að styrkja íslenska vinnumarkaðslíkanið og sjálfsagt að horfa til Norðurlanda í því sambandi, með markmið um stöðugleika, grænan vöxt og vaxandi velsæld allra að leiðarljósi,“ skrifar Bjarni meðal annars og segir að samkeppni geti þrifist víðar hérlendis.
„Enn ber of mikið á ákalli um ríkisvæðingu allra verkefna sem aftur kallar á enn aukin útgjöld sem fjármagna á með stærri lánum og hærri sköttum. Ríkið gegnir víða lykilhlutverki, svo sem í heilbrigðis- og félagsþjónustu og menntakerfinu, en samkeppni getur þrifist víðar og einkaframtakið gegnir lykilhlutverki í því sambandi. Við munum ekki vaxa til velsældar með ríkisvæðingu tækifæranna. Mikilvægum áfanga var náð á árinu við að draga úr ríkisumsvifum með öðrum söluáfanga ríkisins á hlut í Íslandsbanka.“
Grein Bjarna í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í gær.