Flugeldasala er stærsta og mikilvægasta fjáröflunarleið björgunarsveitanna á Íslandi. Otti Rafn Sigmarsson, formaður Landsbjargar, landssamtaka björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi, segir að flugeldasalan fyrir áramótin hafi gengið nokkuð vel.
Hann segir þó söluna hafa heilt yfir verið aðeins minni en síðustu ár og kveður nokkra samverkandi þætti hafa þar mest áhrif.
„Veðurspáin var okkur ekki sérlega hagstæð en það gæti hafa haft áhrif á söluna. Það voru færri á ferðinni og kannski minna um partí í ár en oft áður. Þá voru verð hækkuð lítillega en slíkt hefur eflaust einhver áhrif.“
Umhverfisstofnun vakti athygli á því í desember hvaða áhrif flugeldar hafi á heilsu manna og umhverfið. Stofnunin spurði hvernig fólk gæti minnkað þörfina fyrir flugelda og hvað það gæti gert í staðinn fyrir að sprengja. Otti segir samtökin ósátt við aðferðafræði stofnunarinnar.
„Við erum ekki að gagnrýna það að Umhverfisstofnun vari við mengun af völdum flugelda. Við vitum vel að flugeldar menga og við höfum aldrei reynt að fela það. Við höfum frekar leitast við að reyna að bæta flugeldana og við höfum til að mynda fjarlægt úr þeim alla þungmálma og eins höfum við reynt að losa okkur við plast,“ segir hann.
„Það sem við viljum benda á er að það er eitt að vara við mengun og annað að hvetja fólk til að sniðganga löglega vöru. Við settumst niður með Umhverfisstofnun í desember og í því góða samtali kom ekkert fram sem benti til að slík herferð væri á teikniborðinu og okkur fannst stofnunin svolítið koma aftan að okkur.“
Nú er þrettándinn á föstudag. Á formaðurinn von á smá söluskoti í vikunni?
„Já, það er að minnsta kosti okkar von. Þrettándinn er oft góð leið fyrir fólk sem gat af einhverjum ástæðum ekki fagnað nýja árinu á gamlárskvöld; fólk sem var í vinnu eða ekki heima fyrir til dæmis.“
En hvað er fólk að kaupa? Eru einhverjir nýir straumar eða stefnur í flugeldasölunni eða er þetta hefðbundið og í föstum skorðum?
„Nei, við erum með mikið vöruúrval og heilt yfir þá fer þetta svona nokkuð jafnt út hjá okkur.“