Umdeild kenning um Ísland vekur athygli erlendis

Frá Landmannalaugum.
Frá Landmannalaugum. mbl.is/Árni Sæberg

Þjóðsögur herma að gelískumælandi stríðsdrottning að nafni Auður hafi verið á meðal þeirra fyrstu til að nema Ísland. Saga hennar er kjarni þeirrar kenningar sem nú ryður sér braut, um að skoskir og írskir keltar hafi leikið mun stærra hlutverk í sögu Íslands en áður var talið.

Á þessum orðum hefst umfjöllun breska dagblaðsins Guardian, sem birtist á vef þess í dag og hefur í kjölfarið vakið mikla athygli. Umfjöllunin er, þegar þetta er skrifað, í þriðja efsta sæti yfir vinsælasta efni vefsins í dag.

Þá Auði sem nefnd er þekkja Íslendingar sem Auði djúpúðgu Ketilsdóttur, sem nam land í Dölum og bjó í Hvammi.

Til umfjöllunar er bókin Keltar eftir Þorvald Friðriksson, sem kom út á nýliðnu ári, og sú kenning sem þar er borin upp.

Í kenningunni, sem tekið er fram að sé umdeild, er dregin í efa sú viðtekna söguskýring að Ísland sé alfarið norrænt að uppruna og að því hafi verið komið á fót fyrir um 1.100 árum eftir útbreiðslu fólks frá Skandinavíu.

Þess í stað eigi Keltar mun meiri þátt í uppruna og tungumáli Íslendinga.

Um árabil skoðað íslensk orð og örnefni

„Ég hef um árabil skoðað íslensk orð og örnefni, sem ekki virðast norræn og niðurstaðan er í bókinni,“ sagði Þorvaldur í samtali við Morgunblaðið í nóvember.

„Hún er nýmæli því menn hafa ekki ímyndað sér að svona hátt hlutfall orða í íslensku séu ekki norræn heldur gelísk, sem bendir til þess að hér hljóti að hafa verið töluð gelíska.“

Bókin skiptist í sjö efniskafla, um Kelta, norska og írska landnámsmenn, keltnesk áhrif hérlendis, tengingu við Færeyjar og Grænland, um goða og guði og týnda Íslandssögukafla. Loks er svo orðasafn upp á 31 síðu þar sem fjöldi íslenskra orða, t.d. um dýr og jurtir, örnefni, mannanöfn o.fl., er tengdur við keltnesku.

Strákur, stelpa, æska og elli

Lokaverkefni Þorvaldar í fornleifafræði, sem hann lærði í Svíþjóð, var um keltneskar byggingar á Íslandi, borghlaðin hús eins og til dæmis fiskbyrgi, fjárborgir og sæluhús. „Þessi byggingarstíll er mjög algengur á Írlandi, Skotlandi og eyjunum þar um slóðir en nánast óþekktur í Skandinavíu,“

Eftir að Þorvaldur flutti aftur til Íslands segist hann hafa tekið eftir öllum þeim orðum sem við notum í íslensku, orðum sem ekki eru til í dönsku, sænsku og norsku. Við nánari skoðun megi finna þau flest í gelískum orðabókum. „Þetta eru nöfn húsdýra; grundvallarorð í íslensku eins og strákur, stelpa, æska, elli; nöfn fiska, fugla og örnefni, nöfn fjalla, fjarða, flóa og stórbýla, sem eru óútskýranleg út frá norrænu, en flest auðskýranleg út frá gelísku.“

Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul og Kötlu.
Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul og Kötlu. mbl.is/RAX

Eitt hættulegasta eldfjallið

Í því sambandi bendir hann á viðtekna skýringu á eldfjallinu Kötlu. Katla á að hafa verið vinnukona á Þykkvabæjarklaustri og hún hafi drekkt vinnumanninum Barða. Þegar upp hafi komist um morðið hafi hún stungið sér ofan í eldfjallið og því heiti það Katla.

„Þetta er næsthættulegasta eldfjall Íslands og hefur eytt stórri byggð, sem var á Mýrdalssandi, en Katla þýðir sú er eyðir á gelísku. Þannig má rekja sig um allt land.“ Bolungarvík sé sögð heita eftir bolungi eða bolungum sem rekið hafi þar upp á sandinn.

„Þar er enginn reki og skrítið að víkin heiti eftir einhverju sem er ekki þar. En þar er Syðradalsvatn, sem Ósinn rennur úr sem Óshlíð heitir eftir og bolung á gelísku þýðir stöðuvatn.“

Gagnrýnandi Morgunblaðsins gaf bókinni fjórar stjörnur af fimm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert