„Erum að tvöfalda áformin í Reykjavík“

Einar segir að borg og ríki séu að taka stórt …
Einar segir að borg og ríki séu að taka stórt skref. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, segir að ríki og borg hafi tvöfaldað áform um húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík með samningi sem undirritaður var í dag. 

Innviðaráðuneytið og Reykjavíkurborg hafa samið um uppbyggingu 16 þúsund íbúða á næstu tíu árunum, þar af allt að 2.000 íbúðum árlega næstu fimm árin.

„Við erum að skuldbinda okkur til þess að tryggja að til séu byggingarhæfar lóðir fyrir allt að 3.000 íbúðir tiltækar á hverjum tíma,“ segir Einar. Skuldbindingin skipti máli ekki síst þar sem stundum hafi verið kvartað undan lóðarskorti í Reykjavík. 

Vonar að iðnaðurinn taki við sér

„Ég tel að Samtök iðnaðarins og fleiri aðilar, sem hafa óskað eftir lóðum til þess að byggja á, muni fagna þessu mjög.“

Brýn þörf er á að byggja íbúðir í Reykjavík og gagnrýnt að lóðir sem þegar hafi verið úthlutað standi auðar.

„Nú er að sjá hvort iðnaðurinn taki við sér. Það eru víða byggingarreitir þar sem ekki er verið að byggja og þarf að slá í klárinn. Húsnæðisöryggi, húsnæðismarkaðurinn er að hafa gríðarleg áhrif á lífskjörin í landinu. Eru innlegg inn í kjarasamninga og fleira, sem við þekkjum. Svo það er gríðarlega mikilvægt að við náum jafnvægi á húsnæðismarkaðnum og þetta, að Reykjavík og iðnaðarráðuneytið hafi náð þessum samningi, sex mánuðum eftir kosningar, er gríðarlega stórt skref og mikið fagnaðarefni fyrir alla,“ segir Einar.

„Stendur líka upp á fjármálakerfið“

Getum við treyst því að uppbygging af hálfu iðnaðarins dragist ekki á langinn?

„Ég heyri ekki annað frá þeim geira en að þeir séu tilbúnir að fjölga tækjum og fjölga starfsmönnum í alla þá uppbyggingu sem við erum að boða. Ég vona að þeir séu klárir. Það stendur líka upp á fjármálakerfið að fjármagna þessi áform fyrir verktaka sem vilja fara af stað.“

„Þetta er samfélagslegt verkefni og það þurfa allir að spila með til þess að við náum þessum árangri. Fólkið í Reykjavík og fólkið á höfuðborgarsvæðinu á það skilið að borgin gerir allt sem hún getur til þess að hraða húsnæðisuppbyggingu“ segir Einar og bætir við að ríkið, iðnaðurinn og fjármálakerfið þurfi að standa saman að því verkefni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert