Þegar ljósmyndari Morgunblaðsins kom við um miðjan nóvember síðastliðinn var búið að girða af lóðina við Laugaveg 168. Vinna við niðurrif tveggja samliggjandi húsa, annars á horni Nóatúns og Laugavegar og hins við Laugaveg, var hafin.
Eins og sjá má á stærri myndinni hér fyrir ofan hafa húsin tvö nú verið fjarlægð og kemur þá í ljós hversu stór lóðin er. Hluti baklóðar var meðal annars nýttur undir bílastæði Brautarholtsmegin en húsin máttu muna sinna fífil fegurri.
Á þessari hornlóð er fyrirhugað að reisa átta hæða fjölbýlishús og áformað að íbúðirnar komi á markað innan þriggja ára.
Síðan stendur til að halda niðurrifinu áfram en Hekla hyggst flytja sig um set. Losnar þá mikið byggingarland, ekki síst á bílaplani austan við sýningarsali umboðsins.
Undanfarin ár hefur hverfið gengið í endurnýjun lífdaga. Brauðgerðinni í Skipholti 11-13 var breytt í 20 íbúðir og Bónusverslun og þá voru húsin sem hýstu Baðhúsið og Þórskaffi í Brautarholti 18-20 endurbyggð og eru þar nú 64 íbúðir.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.