„Þetta var glæsilegur fundur þar sem fólk sem hefur ekki verið í innsta kjarna grasrótarinnar í Reykjavík lét til sín taka,“ segir Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúi um sögulegan fund Málfundafélagsins Óðins í Sjálfstæðisflokknum í hádeginu í gær en Friðjón sat þar í kjörstjórn.
Á fundinum var nýr formaður Óðins kjörinn ásamt nýrri stjórn og þekkist önnur eins kosningaþátttaka ekki í sögu félagsins en 248 félagsmenn greiddu atkvæði á fundinum. Birna Hafstein náði kjöri sem formaður með 161 atkvæði en mótframbjóðandi hennar, Einar Hjálmar Jónsson, hlaut 87 atkvæði.
Í nýrri stjórn Óðins eftir kosninguna í gær sitja Auður Björk Guðmundsdóttir, fjárfestinga- og rekstrarstjóri, Bryndís Bjarnadóttir, sérfræðingur í netöryggi, Guðný Halldórsdóttir blaðamaður, Hildur Hauksdóttir, sérfræðingur í umhverfismálum, Magnús Þór Gylfason viðskiptafræðingur, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, leikkona og leikhússtjóri Þjóðleikhúskjallarans, Þorvaldur Birgisson rekstrarhagfræðingur og Viktor Ingi Lorange verkefnastjóri.
Margir líta svo á að þarna hafi átt sér stað eins konar liðskönnun tveggja fylkinga meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem áttust við í prófkjöri sumarið 2021 fyrir alþingiskosningar þá um haustið, undir merkjum ráðherrana Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur. Þá hafði Guðlaugur nauman sigur, en hann laut síðan sem kunnugt er í lægra haldi fyrir Bjarna Benediktssyni í formannskjöri á landsfundi flokksins síðastliðið haust. Að þessu sinni vann fólk, sem margir tengja við Áslaugu Örnu, afgerandi sigur.