Viðbragð í mokstri of seint fyrsta daginn

Dagur viðurkennir að betur hefði mátt standa að snjómokstri í …
Dagur viðurkennir að betur hefði mátt standa að snjómokstri í húsagötum. mbl.is/Arnþór

„Fyrsta daginn þegar snjó kyngdi niður var viðbragðið of seint,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, spurður hvort viðbragð borgarinnar í snjómokstri sé ásættanlegt. 

„Almennt hefur gengið mjög vel að ryðja stofnbrautirnar. Fyrst og fremst höfum við kannski lent í vanda varðandi húsagöturnar, þegar snjórinn hefur verið mjög mikill eða þegar það hefur haldið áfram að snjóa yfir lengri tíma,“ segir Dagur og bætir við að rætt hafi verið í borgarstjórn hvaða þjónustuviðmið þurfi að setja í snjómokstri. 

Áætlun verði tilbúin fyrir næsta vetur

Hvenær megum við búast við heildstæðri áætlun? Verður beinum samningum við verktaka fjölgað?

„Ég á von á tillögum í þessum mánuði frá hópnum, sem er að störfum. Við vitum að ákveðnir samningar renna út með vorinu.“ Ný áætlun í snjómokstri verði tilbúin fyrir næsta vetur.

Dagur segir bersýnilegt að stóru stofnæðarnar og aðalumferðargöturnar séu auðar. 

„Því okkur hefur tekist svo vel að hreinsa þær fyrir klukkan sjö, nánast á hverjum morgni og fyrir klukkan átta, það sem eftir stendur þá. Fólk sér að húsagöturnar, sem eru í þriðja og fjórða forgangi taka meiri tíma. Þær eru auðvitað miklu fleiri og svo framvegis,“ segir hann og bætir við að umræðan í borgarstjórn hafi að miklu leyti snúist um mokstur í húsagötum.

Strætó gangi nær oftast 

Mengun vegna köfnunarefnisdíoxíðs mældist yfir heilsuverndarmörkum í gær og var fólk því hvatt til að skilja einkabílinn, orsakavald mengunarinnar, heima.

Gangstéttir og göngustígar hafa víða ekki verið mokaðir síðan snjór féll á nýársdag. Er þá ekki erfitt að ætlast til þess að fólk nýti sér þá kosti?

„Þetta var það sem við tókum í gegn fyrir nokkrum árum. Við viljum gjarnan þjóna öllum fararmátum eins. Auðvitað getur fólk treyst því að Strætó gengur meira og minna hvernig sem viðrar. Það er bara mitt í óveðrinu sjálfu sem það getur brugðið til beggja vega. Við viljum sannarlega vera aðgengileg borg en í mestu vetrarveðrunum tekur alltaf ákveðinn tíma að komast í gegnum allt sem moka þarf.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert