Netverslunin Boozt hefur bæst í hóp helstu bakhjarla Handknattleikssambands Íslands en samkomulag þess efnis var undirritað fyrir helgi.
Frá og með HM karla sem hefst í Svíþjóð og Póllandi hinn 11. janúar mun Boozt því hafa auglýsingu sína framan á treyjum allra landsliða Íslands í handknattleik.
„Sú staðreynd að stærsta netverslun Norðurlandanna velur að hafa sitt þekkta vörumerki á keppnistreyjum er mikil viðurkenning fyrir uppbyggingu handboltastarfsins á síðustu árum og stöðu íslenska landsliðsins á alþjóðavísu. Markmiðið með samstarfinu er að tengja HSÍ og Boozt betur saman og vinna sameiginlega að enn frekari framþróun handboltans hér á landi. HSÍ lýsir yfir ánægju sinni með samninginn og vonast til að eiga gott samstarf við Boozt í framtíðinni,“ er haft eftir Guðmundi B. Ólafssyni, formanni HSÍ, í tilkynningu frá sambandinu.
Stór verkefni eru framundan hjá HSÍ á nýju ári. A-landslið karla heldur á HM í Svíþjóð og Póllandi í næstu viku, A-landslið kvenna leikur vináttulandsleiki gegn Noregi hér heima í mars og í apríl leika stelpurnar okkar umspilsleiki gegn Ungverjalandi um sæti á HM í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Yngri landslið Íslands í handbolta verða einnig á faraldsfæti á árinu. U-21 karla fer á HM í Þýskalandi og Grikklandi, U-19 karla á HM í Króatíu, U-17 karla á Opna Evrópumótið í Svíþjóð og Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) í Slóveníu, U-19 kvenna á EM í Rúmeníu og U-17 kvenna á EM í N-Makedóníu.
Boozt er stærsta netverslun Norðurlandanna og selur m.a. tískufatnað, íþróttaföt og heimilisbúnað og sendir vörur sínar til flestra landa Evrópu. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Malmö í Svíþjóð og er það skráð í bæði sænsku og dönsku kauphöllinni.
„Sem Íslendingur er ég stoltur af því að Boozt sé nýr aðalstyrktaraðili Handknattleikssambands Íslands. Samstarfið endurspeglar vilja okkar til þátttöku í samfélaginu með stuðningi við íþróttir sem þjóðin sameinast um. Ég hlakka til að sjá hvað bíður hæfileikaríkra leikmanna landsliðsins í framtíðinni og ég er sannfærður um að samstarfið gagnist bæði okkur hjá Boozt og Handknattleikssambandi Íslands,“ er haft eftir Hermanni Haraldssyni, forstjóra Boozt, í tilkynningunni frá HSÍ.