Segir rugl að spítalinn sé ekki vanfjármagnaður

Kári segir óskynsamlegt af Birni að taka fram fyrir hendur …
Kári segir óskynsamlegt af Birni að taka fram fyrir hendur forstjóra LSH. mbl.is/Hallur Már

Kári Stef­áns­son, for­stjóri Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar, seg­ir rugl að halda því fram að Land­spít­al­inn sé ekki van­fjár­magnaður, líkt og Björn Zoëga, for­stjóri Karólínska sjúkra­húss­ins í Stokk­hólmi og formaður stjórn­ar Land­spít­al­ans, hélt fram í viðtali á RÚV í byrj­un árs­ins.

Þetta kom fram í máli Kára í þætt­in­um Sprengisand­ur á Bylgj­unni í morg­un.

„Ég trúi ekki að Björn sé á þeirri skoðun að spít­al­inn sé fylli­lega fjár­magnaður, vegna þess að hann er það ekki,“ sagði Kári meðal ann­ars. Hann tel­ur að Birni hafi orðið mis­tök. Hann hafi viljað segja að það væri margt fleira að á spít­al­an­um en fjár­skort­ur.

Bæði stjórn­end­ur og starfs­fólk Land­spít­al­ans hafa kallað eft­ir auknu fjár­magni en Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra og Will­um Þór Þórs­son heil­brigðisráðherra hafna því að spít­al­inn sé van­fjár­magnaður.

Óskyn­sam­legt að taka fram­fyr­ir hend­ur for­stjóra 

Þá sagði Kári það ekki hlut­verk for­manns stjórn­ar Land­spít­al­ans að tjá sig á þenn­an hátt. „Hann er að grípa fram fyr­ir Run­ólfi Páls­syni, for­stjóra spít­al­ans, og það er óskyn­sam­legt.“

Þegar þátta­stjórn­andi spurði Kára hvort við yrðum ekki að gera ráð fyr­ir því að Björn vissi sínu viti vegna mik­ill­ar reynslu og vel­gengni starfi, sagði Kári ekki hægt að hlusta gagn­rýn­is­laust á til­lög­ur Björns. Hann hafi ekki komið með töfra­lausn­ir sem leysi okk­ar vanda­mál.

Kári sagði það flókið verk­efni að halda utan um Land­spít­al­ann og það væri ekki gott ef stjórn­ar­formaður og for­stjóri töluðu ekki í takt.

Að hans mati er það al­veg ljóst að vel­ferðarsam­fé­lagið er farið að gefa eft­ir og það sé ekki leng­ur sá griðarstaður sem það hafi verið. „Það er orðið mjög erfitt að telja sjálf­um sér trú um að fólk sé ör­uggt í ís­lensku sam­fé­lagi, án þess að það sé til­tölu­lega vel fjáð. Og það er sárt.“

Bráðamót­tak­an alltaf kaos 

Hann sagðist þó ekki skilja af hverju menn væru sí­fellt að varpa hönd­um til him­ins út af bráðamót­tök­unni. Það væri í eðli henn­ar að þar væri kaos og ekki bara hér á landi, enda kæmi fólk þangað í ang­ist sinni þegar eitt­hvað al­var­legt hefði komið fyr­ir.

Vand­inn væri að erfitt væri að koma fólki af bráðamót­töku á legu­deild­ir og þann vanda væri hægt að leysa. Kári talaði um að hægt væri að skil­greina sjúkra­hús á tvenns kon­ar hátt. Ann­ars veg­ar þannig að hlut­verk þess væri að ann­ast fólk þangað til það gæti séð um sig sjálft.

Hins veg­ar þannig að sjúkra­hús hefði ekki öðrum skyld­um að gegna en að sjá um bráðavanda. Þá þyrftu hins veg­ar að vera hjúkr­un­ar­heim­ili til taks.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka