Ekki vegryk heldur útblástur

Svifryk og útblástur frá ökutækjum er orðið að miklu vandamáli …
Svifryk og útblástur frá ökutækjum er orðið að miklu vandamáli á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/RAX

„Vetrarstillur skapa aðstæður til að mengun nái að safnast upp, sama hvaða mengun það er en akkúrat þessa vetrardaga þá var snjór eða slabb á öllum götum. Þá er ekki þetta vegryk,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sér­fræðing­ur í loft­gæðum hjá Um­hverf­is­stofn­un, í samtali við mbl.is.

Í síðustu viku deildu Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, um­hverf­is- og lofts­lags­ráðherra, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um það hvort léleg loftgæði í borginni skýrðust af útblæstri farartækja eða svifryksmengun. 

Í viðtali við mbl.is á laugardag sagði Guðlaugur að umræðan væri á villigötum þar sem að mengunin tengdist ekki svifryki heldur miklu magni af nit­urtvíoxíði (No2) og hins veg­ar brenni­steinsvetni (H2S). 

Dagur sagði í tísti að umferð og nagladekkjum væri um að kenna. 

Nagladekkin og frostið

Þorsteinn segir það alveg rétt að nagladekkin hafi ekki verið vandamálið í síðustu viku þar sem snjór var á götunum. 

Hann nefnir þó að það sé alveg rétt að það komi dagar þar sem mikið er um svifryk. 

„Þessir stóru svifrykstoppar eru yfirleitt útaf vegryki. Vegrykið er að stórum hluta slitið malbik og þar af leiðandi hafa nagladekkin þar mikið að segja,“ segir Þorsteinn og bætir við að bíll á nagladekkjum slíti malbikinu 20 til 40 sinnum meira heldur en bíll á ónegldum dekkjum. 

Þorsteinn Jóhannsson, sér­fræðing­ur í loft­gæðum hjá Um­hverf­is­stofn­un.
Þorsteinn Jóhannsson, sér­fræðing­ur í loft­gæðum hjá Um­hverf­is­stofn­un. Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Hann nefnir að það séu þó ekki einungis nagladekk sem slíti götunum heldur einnig veðrið og þá sérstaklega frostið. 

„Allt steinefni, hvort sem það er steypa, malbik eða grjót út í náttúrunni, brotnar niður í sveiflum í frosti,“ segir Þorsteinn og bætir við að á venjulegum vetri sé um 70 til 90 frostsveiflur. 

Snjómokstur og söltun 

Auk nagladekkjanna og sveiflna í frosti segir Þorsteinn að snjómokstur slíti einnig malbikinu. 

„Þegar stáltönn skrapar malbikið – það slítur malbikinu.“

Hann nefnir líka að söltun gatnanna auki áhrif frostþíðunnar. „Þá minnkar yfirborðsspenna vatnsins og vatnið nær að snúa dýpra ofan í sprunguna í grjótinu.“

Þorsteinn segir það ekki rétt að saltið leysi upp malbikið en hins vegar hraði það frostþíðunni. 

Þolmörk 

Meng­un af völd­um köfn­un­ar­efn­is­díoxíðs hafði sjald­an eða aldrei verið meiri í Reykja­vík en síðasta fimmtudag. Sú mengun kemur beint frá útblæstri bíla. Dísilbílar menga meira en bensínbílar, og þá er talsverður munur á bílum sem framleiddir voru fyrir árið 2000 og eftir það.

Þorsteinn segir að köfn­un­ar­efn­is­tvíoxíðið sé annars vegar alveg óháð nagladekkjum og hins vegar brenni­steinsvetninu sem komi frá virkjunum. En í síðustu viku voru kjöraðstæður fyrir nit­urdíoxíð og brenni­steinsvetni á höfuðborgarsvæðinu. 

Þorsteinn segir að um tíma hafi köfn­un­ar­efn­is­tvíoxíðsmengun minnkað ár frá ári þrátt fyrir fleiri bíla og meiri umferð. Þetta skýrist af betri mengunarvörnum í nýjum bílum. 

„En við erum á allra síðustu árum farin að sjá að það sé að fara upp á við aftur, eins og það sé komið að ákveðnum mörkum hvað er hægt að minnka mengunina. Á meðan heldur bílum áfram að fjölga.“

Köfn­un­ar­efn­is­tvíoxíð og brenni­steinsvetni

Spurður hvort heilsufarsáhrifin af annars vegar köfn­un­ar­efn­istvíoxíði séu þau sömu og af brenni­steinsvetni segir Þorsteinn að áhrifin af köfn­un­ar­efn­is­díoxíð séu líklega meiri. 

Hann nefnir þó að margfalt fleiri rannsóknir séu til um áhrif köfn­un­ar­efn­istvíoxíðs á heilsufar manna, þar sem áhrifa þess gætir í öllum löndum heims. 

Þorsteinn segir að rafmagnsbílar hafi algjöra yfirburði er koma að köfn­un­ar­efn­is­tvíoxíðsmengun þar sem enginn útblástur komi frá bílunum. Aftur móti slíti þeir götunum alveg jafnmikið og jafnvel meira. Það orsakist af þyngd bílanna. Hann segir þó að það það engin köfn­un­ar­efn­istvíoxíðsmengun komi frá rafbílum vegi að ákveðnu leyti upp þann galla. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert