Algengustu grunnlaun hjúkrunarfræðinga eru 640 þúsund krónur eftir 4 til 6 ára háskólanám og 20 ára starfsreynslu, en um helmingur starfandi hjúkrunarfræðinga vinnur einungis dagvinnu, að sögn Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Félags hjúkrunarfræðinga.
Hún segir mikilvægt hafa í huga þegar heildarlaun hjúkrunarfræðinga eru skoðuð, að einungis 65 prósent af heildarlaunum séu dagvinnulaun.
Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, spurði í Silfrinu í gær hvað væri nóg og hver væri verðmiðinn þegar kæmi að kjörum heilbrigðisstétta. Sagðist hún hafa skoðað upplýsingar hjá fjármálaráðuneytinu sem öllum væru aðgengilegar, og þar hefði hún séð að meðalheildarlaun hjúkrunarfræðinga í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, frá því í janúar og fram í september á síðasta ári, hefðu verið 1.065.000 krónur.
„Ég velti fyrir mér hvar er punkturinn, hvar eru kjör þessara stétta orðin nógu góð,“ sagði Svanhildur meðal annars.
Guðbjörg segir ummæli Svanhildar reita hjúkrunarfræðinga til reiði og eflaust fleiri heilbrigðisstéttir líka. Tölurnar sem hún nefni gefi mjög skakka mynd af raunveruleikanum og það gleymist að taka með í reikninginn vaktaálag og gríðarlega mikla yfirvinnu sem sé að keyra fólk í þrot.
„Málið er að það sem gleymist að hugsa um að þetta felur í sér vaktaálag, kvöld-, nætur- og helgarvinnu, jól og páska þegar aðrir eru í fríi. Auk þess er inni viss hluti yfirvinnu sem er til komin vegna þeirrar manneklu sem við búum við. Það er sú yfirvinna sem hjúkrunarfræðingar og aðrar heilbrigðisstéttir eru að taka til að láta heilbrigðiskerfið ganga upp. Ofan á það bætist öll yfirvinna sem hefur komið til vegna heimsfaraldursins sem er enn ein tegund yfirvinnu sem bætist ofan á hina,“ segir Guðbjörg í samtali við mbl.is.
„Þar fyrir utan erum við að byrja að sjá aukningu langavarandi veikinda, meðal annars hjá hjúkrunarfræðingum, í kjölfar síðustu tveggja ára, þannig það er enn ein tegund yfirvinnu sem er að bætast þar við,“ segir hún jafnframt.
„Þú ert kannski að skila langt yfir 100, kannski 150 prósent, kvöld, nætur, helgar, allar hátíðir. Þetta eru þær tölur.“
Guðbjörg segir þó ekki mega gleyma því að aðeins 65 prósent af heildarlaunum hjúkrunarfræðinga séu dagvinnulaun og að um helmingur starfandi hjúkrunarfræðinga vinni einungis dagvinnu.
„Það eru ekki allir sem eru að taka þessa yfirvinnu, hafa ekki getu eða aðstöðu eða bara vilja það ekki. Vilja bara vinna sína fullu vinnu eins og aðrar fagstéttir gera í þessu þjóðfélagi og láta þar við sitja. Það er ekki sýndur skilningur á því.“
Samkvæmt launatölum sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skilaði heilbrigðisráðuneytinu í september síðastliðnum eru meðalgrunnlaun hjúkrunarfræðinga um 640 þúsund krónur, en meðalaldur starfandi hjúkrunarfræðinga er 45 ár.
„Þetta þýðir að eftir 4 til 6 ára háskólanám, því margir hjúkrunarfræðingar eru með meistaramenntun, framhaldsmenntun ofan á grunnnámið, og yfir 20 ára starfsreynslu þá ertu með 640 þúsund fyrir 100 prósent vinnu. Er það í lagi?“ spyr Guðbjörg.
„Ef þú ert að vinna á dag- eða göngudeild og ert í dagvinnu, þá eru þetta launin sem þú ert að fá, og þetta þarf að ræða.“
Tölurnar sem Svanhildur vísi til feli í sér þessa gríðarlegu yfirvinnu og allt vaktaálagið, sem hún áður minntist á.
„Er það svona sem yfirvöld eru að hugsa um að keyra kerfið áfram og ganga af fólkinu endanlega dauðu. Erum við ekki búin að heyra nóg af því?“ spyr Guðbjörg einnig.
„Hún spyr hvað er nóg, þetta er ekki nóg.“