„RÚV á ekki að vera með undanþágu frá samkeppnisreglum EES-samningsins og vera samtímis með nefskatt og starfa á auglýsingamarkaði. Til þess að tryggja jafnræði og fara eftir EES-reglum er rétt að leggja niður nefskatt þann sem RÚV hefur sem tekjustofn í dag umfram aðra fjölmiðla,“ segir í umsögn Útvarps Sögu um frumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla.
Í umsögninni, sem Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri ritar undir, segir að frumvarpið viðhaldi óheilbrigðu samkeppnisumhverfi einkarekinna fjölmiðla og viðhaldi forréttindastöðu RÚV á fjölmiðlamarkaði.
Rétt væri að hennar mati að virðisaukaskattur sem lagður er á auglýsingasölu yrði aflagður til jafns við þá erlendu fjölmiðla sem eru hér á sama markaðssvæði samkvæmt ákvæðum EES-samningsins.