Skrifstofu Starfsgreinasambandsins berast tugir símtala á dag, frá félagsfólki Eflingar. Félagsfólk er uggandi yfir stöðunni, eftir að samninganefnd Eflingar og Samtök avinnulífsins slitu viðræðum, og vill kanna þá kosti sem það hefur. Einnig eru dæmi um að fyrirtæki hafi samband fyrir hönd starfsfólks síns.
Þetta staðfestir Björg Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri SGS, í samtali við mbl.is. Þar að auki berst sambandinu fjöldinn allur af tölvupóstum og því óhætt að segja að það sé óvenju mikið álag á skrifstofu SGS um þessar mundir.
Björg segir sambandið ekki geta ráðlagt félagsfólki Eflingar að skipta um félag. „Aðildarfélögin okkar starfa á sínum félagssvæðum. Efling starfar á höfuðborgarsvæðinu og félagsmenn Eflingar geta því ekki skipt yfir í önnur félög okkar sem starfa á landsbyggðinni. Við vonum aftur á móti að félagsmenn Eflingar taki afstöðu innan síns félags, með því að láta í sér heyra og taka þátt í atkvæðagreiðslum.“
Til viðbótar við svæðistakmarkanir, gildir sú regla að ekki er hægt að skipta um stéttarfélag eftir að búið er að slíta kjaraviðræðum.
Í fimmtu grein reglna Eflingar, er gengið jafnvel lengra og miðað við að félagsfólk geti ekki skipt um stéttarfélag eftir það tímamark þegar viðræður um kjarasamninga hefjast.
Eyþór Þ. Árnason, formaður verkalýðsfélagsins Hlífar, sem er aðildarfélag SGS og starfar í Hafnarfirði, segir félagið hafa borist fjölmörg símtöl undanfarna daga frá félagsfólki Eflingar sem óskar eftir því að fá að færa sig.
Sömu sögu má segja um verkalýðsfélagið Báru, en Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, lýsti því í viðtali við Vísi, að „allar línur væru glóandi“ hjá stéttarfélaginu.
„Það er því miður ekki hægt að verða við öllum beiðnunum. Við erum bara með samningsréttinn fyrir Hafnafjörð og Garðabæ og þetta eru fyrirtæki og starfsmenn fyrirtækja, utan okkar félagssvæða sem hafa verið að leita upplýsinga um það hvort hægt sé að skipta. Þar að auki er ekki hægt að segja sig úr stéttarfélagi meðan kjaradeilur standa yfir,“ segir Eyþór í samtali við mbl.is.
Helstu ástæður sem gefnar eru fyrir þessum umleitunum, eru þær að fólk er smeykt við áhrifin af mögulegu verkfalli, að sögn Eyþórs.
Ekki hefur borið eins mikið á því að félagsfólk Eflingar reyni að skipta yfir í VR, að sögn Stefáns Sveinbjörnssonar, framkvæmdastjóra VR. Hann bendir á að þar sem stéttarfélögin tvö starfi í þágu mismunandi starfsstétta, þá hafi það lítil áhrif á réttarstöðu launþega að skipta um félag.
Atvinnurekendur borgi laun samkvæmt gildandi launatöflu hverrar starfsstéttar, ekki eftir því hvaða stéttarfélagi einstaka starfsmenn tilheyri.