Norðfirðingar óttast að raforkuöryggi í Neskaupstað kunni að vera ógnað þar sem að taka á niður varaaflstöð sem hefur verið til staðar fyrir bæinn, að því er fram kemur í umfjöllun Austurfréttar.
Til stendur að flytja tvær til þrjár varaaflsvélar Rariks til Úkraínu en eins og mörgum er kunnugt er mikil þörf fyrir slíkar vélar þarlendis í kjölfar mikilla árása Rússa á orkumannvirki í landinu.
Vélarnar, sem hafa verið í Neskaupstað, hafa ekki verið notaðar síðustu ár og eru orðnar það gamlar að þær verða ekki settar upp í annarri varaaflstöð hér á landi.
Rósant Guðmundsson, kynningarfulltrúi Rariks, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Í svari Rariks við fyrirspurn Austurfréttar kemur einnig fram að öflugri tengingar við Neskaupstað hafi dregið úr þörfinni fyrir varaaflstöð.
Stöðin hafi verið mikilvæg þegar einungis ein rafmagnslína hafi legið til Neskaupstaðar úr meginflutningskerfinu. Staðan sé aftur á móti önnur í dag eftir að nýr jarðstrengur var tekinn í notkun um ný Norðfjarðargöng árið 2021. Rarik og Landsnet telji því ekki lengur sömu þörf á varaafli fyrir Neskaupstað og áður var.