Í Tý, ritstjórnarpistli Viðskiptablaðsins, í morgun er Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar beðin afsökunar á ósmekklegu orðalagi fyrri pistils.
Þar var fylgisaukningu flokksins að undanförnu líkt við „ótímabært sáðlát“ sem einnig varð fyrirsögn pistilsins.
„Myndlíkingin var með öllu óboðleg og til þess fallin að særa. Tý þykir afar miður að hafa misboðið lesendum með vanhugsuðum skrifum og biður Kristrúnu og lesendur alla innilegrar afsökunar, enda stendur hann við það sem fram kom í umræddum pistli, að Kristrún sé mesta efni Samfylkingarinnar um langa hríð og bindur miklar vonir við að hún muni hafa góð áhrif á vinstri armi stjórnmálanna,“ segir í afsökunarbeiðni Viðskiptablaðsins.
Fyrirsögn pistilsins var síðar breytt í „ótímabær fögnuður“ en þar að auki hefur afsökunarbeiðni nú verið birt.