Á síðustu fjórum árum hefur Vegagerðin varið rúmlega 40% af fjármunum sínum í viðhald á eldri vegum og mannvirkjum, en á sama tíma hafa um 60% farið í nýframkvæmdir. Svipuð staða er upp á teningnum samkvæmt áætlun fyrir þetta ár. Þrátt fyrir sérstakt viðhaldsátak árið 2021 hefur lítið gengið að vinna á stóru viðhaldsgati í vegakerfinu upp á tugi milljarða.
Í upphafi árs 2020 var greint frá því að uppsafnaður viðhaldsvandi vegakerfisins næmi um 60-65 milljörðum, en uppreiknað á verðlag dagsins í dag er það um 72-78 milljarðar. Ári síðar, í tengslum við kórónuveirufaraldurinn, var ákveðið að setja talsverða aukafjármuni í vegaframkvæmdir og fór það bæði í nýframkvæmdir og viðhald líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Í fyrra lækkuðu svo fjárfestingar Vegagerðarinnar talsvert eftir að átakinu lauk og í ár eru fjárfestingarnar áætlaðar lægri á nafnvirði en þær voru árið 2019. Vegagerðin mat það svo árið 2020 að árleg þörf á viðhaldi næmi um 9,5 milljörðum. Hefur sú tala verið sett í viðhald árlega síðustu fjögur ár, nema átaksárið 2021 þegar upphæðin fór í 17,6 milljarða.
Hefur þá eitthvað gengið að vinna á þessum uppsafnaða vanda? „Svarið er nei. Við erum ekki komin upp úr því og það þarf að vera áherslumál fyrir Vegagerðina og ríkisvaldið,“ segir Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is. Segir hann Vegagerðina vera undir þeirri upphæð í ár sem hún vilji mæla með varðandi viðhald vega svo vegakerfinu sé haldið í standi.
Með grófum útreikningi má áætla að átakið 2021 hafi unnið á gatinu svipað og nemur verðlagshækkunum síðustu tveggja ár og vandinn því enn snjóbolti sem ýtt sé á undan sér.
Rifjar Óskar upp átaksárið, en að síðan hafi dregið úr fjármunum í viðhald. „Við viljum leggja áherslu á að þessi málaflokkur fái fjármagn. Bara til að halda hlutunum í ásættanlegu horfi þá eru það m.a. þessir vegir sem sjá skyndilega aukna umferð sem verður til þess að byggja þarf þá upp frá grunni. Svo eru það brúarmannvirki sem eru dýr í endurnýjun. Þar að auki þarf að vinna í endurnýjun vegriða víðast hvar með tilliti til aukinna öryggisstaðla sem hafa tekið gildi,“ segir Óskar.
En þarf þá mögulega að breyta hlutföllunum sem fara í viðhald og svo það sem fer í nýframkvæmdir til að snúa þessari þróun við? Óskar bendir á að með nýjum framkvæmdum þá þurfi einnig að horfa til þess að slíkar framkvæmdir kalli síðar meir á aukið fé í viðhald. „Við erum að bæta við um 70-100 km af bundnu slitlagi á ári og við erum að byggja fleiri mannvirki. Þau hljóta að kalla á meira fé til að halda þeim við.“
Þá segir Óskar ekki hægt að horfa fram hjá því hvernig ferðaþjónustan birtist á vegum landsins með langferðabifreiðum og aukinni umferð. „Það er slit á vegakerfinu sem augljóslega þarf að sinna.“ Nefnir hann í því sambandi umferðamestu vegina á Gullna hringnum, líkt og var árið 2020 og svo vegi þar sem komið hafi til skyndilegra þungaflutninga m.a. vegna fiskeldis eða út frá öðrum iðnaði. „Þar birtist þetta í að vegir gefa undan vegna aukinnar umferðar.“