Eflingarfólk getur skoðað hvaða greiðslur það fær

Blaðamannafundur var haldinn í Karphúsinu í morgun.
Blaðamannafundur var haldinn í Karphúsinu í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkissáttasemjari er með í vinnslu vefsíðu sem félagsfólk Eflingar getur farið inn á og skoðað hvaða áhrif miðlunartillagan hefur á afturvirkar greiðslur og mánaðarlegar greiðslur fyrir dagvinnu í fullu starfi.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem ríkissáttasemjari hélt í morgun þar sem hann greindi frá miðlunartillögunni. Félagsfólk Eflingar getur þannig mátað sig inn í miðlunartillöguna, eins og Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari orðaði það á fundinum í morgun.

Taxtar hækka um allt að 52 þúsund

Samkvæmt upplýsingablaði sem mbl.is hefur undir höndum og verður væntanlega birt á vefsíðu ríkissáttasemjara felur miðlunartillagan í sér að öll laun Eflingarfólks hækka með sama hætti og hjá öllum öðrum félögum hjá Starfsgreinasambandinu.

Virkir kauptaxtar aðalkjarasamnings hækka á bilinu 35.000 krónur til 52.258 krónur og er meðalhækkunin um 42.000 krónur. Hlutfallsleg hækkun sömu taxta á bilinu 9,5 prósent til 13 prósent og er meðalhækkunin rúmlega 11 prósent.

Allar hækkanir gilda frá 1. nóvember 2022, sem þýðir að allir fá afturvirkar hækkanir fyrir nóvember 2022, desember 2022 og janúar 2023.

Sem dæmi má nefna að afturvirkar greiðslur fyrir tímabilið hjá byrjanda í launaflokki 4 verða að lágmarki 105 þúsund krónur. Hjá einstaklingi með fimm ára starfsreynslu í launaflokki 17 verða afturvirkar greiðslur að lágmarki tæplega 157 þúsund krónur.

Niðurstaðan bindandi

Atkvæðagreiðsla um miðlunartillöguna fer fram rafrænt á satti.is. Hún hefst klukkan 12 á hádegi laugardaginn 28. janúar og lýkur klukkan 17 þriðjudaginn 31. janúar. 

Samkvæmt því sem fram kemur á upplýsingablaðinu er stefnt að því að niðurstöður kosningar liggi fyrir klukkan 17.30 sama dag. Niðurstöðurnar eru bindandi og eru ígildi kjarasamnings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert